Við erum komin til Kathmandu, höfuðborgar Nepal sem kallar sig konungdæmi Himalayafjallanna. Flugið frá Delhi gekk vel þrátt fyrir mikla þreytu eftir erfiða nótt í næturrútunni. Fluginu seinkaði reyndar um tvo tíma en það þýddi bara að Air Sahara bauð okkur upp á Subway samlokur og við fengum meiri tíma til að lesa í tímaritunum sem við keyptum á flugvellinum.
Kathmandu er staðsett í Kathmandu dalnum og þegar maður flýgur að vellinum eru hólar og hæðir beggja megin við mann, sem er svolítið geggjað að sjá. Þegar við vorum búin að kaupa sitthvora vegabréfsáritunina upp á $ 30 var okkur frjálst að stíga inn í Nepal. Við urðum samferða Þjóðverjanum Jonathan niður í bæ og saman leituðum við að ásættanlegu hóteli.
Meðan við leituðum að hóteli fengum við smá nasasjón af borginni. Hún er mun afslappaðri og skemmtilegri en borgir sem við höfum heimsótt í Indlandi. Göturnar eru hreinni og breiðari, blómapottar og garðar út um allt, húsin mörg hver í evrópskum stíl og fólk vestrænna í hugsun. Andinn meðal Nepala er allur annar en meðal Indverja og það er mjög góð tilbreyting.
Eina sem við kvörtum undan er maturinn sem við neyddumst til að borða í kvöld. Þar sem við vorum seint á ferð (tíu) var búið að loka öllum stöðum og við urðum að borða á nepölskum stað sem heimamenn sækja. Maturinn var vondur, svo vondur að Baldur snerti ekki einu sinni á honum!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli