föstudagur, 22. júní 2007

Chinatown, Siam Sq. & Lumphini Park

Við fórum í mjög skemmtilega bæjarferð í dag og höfum nú skýrari mynd af því hvað Bangkok hefur upp á að bjóða. Við byrjuðum á Kínahverfinu og skoðuðum þar kínverskar kvikmyndir og tónlistardiska til sölu, fylgdumst með því hvernig furðulegir ávextir eru verkaðir, fengum blævæng frá skrautlegum karakterum, kíktum í raftækjaverslun (sem er eitt af aðaláhugamálum okkar!) og keyptum lichi í poka.

Við sáum líka þurrkaða sæhesta í krukkum og hákarlaugga í búðarglugga, kastaníur í ristun, kínversk rittákn, þurrkaða fiska með allskonar krydderingu, ferskar ostrur og krabba með bundnar klær, girnileg kirsuber, epli og vínber á ávaxtamarkaðnum, grillaðar og útflattar Peking endur og afhoggna hausa með langan háls til hliðar. En hvort við heyrðum nokkurn tímann kínversku talaða get ég ekki sagt til um, ég er ekki það sleip í að þekkja tónamál í sundur.

Frá Kínahverfinu tókum við leigara niður á Siam Sq. sem er eitt helsta verslunarhverfi borgarinnar (MBK verslunarmiðstöðin góða stendur einmitt við torgið). Siam Sq. er mekka táninga Bangkok og til marks um það var allt morandi í unglingum í skólabúningum. Ekki að maður hafi í fyrstu fattað að allar stúlkurnar væru í skólabúning, míní pils, pinnahælar og flegnar skyrtur voru augljóslega haute couture í þeirra augum. Við gerðum okkur leik að því að festa táningana á filmu en náðum því miður ekki að skjalfesta stystu pilsin og svæsnustu hælana.

Siam Sq. virkaði á okkur sem Barbieheimur eða draumaveröld verslunarfríksins: endalaust úrval af varningi og mat, bleikir ljósastaurar og appelsínugulir plastbekkir til að tilla sér á í amstri verslunarleiðangurs, húsin öll lágreist, hreinar og hellulagðar gangstéttar, skærlit auglýsingaskilti og tré í beðum.

Frá MBK tókum við Skytrain yfir í Lumphini Park. Himnalestin er það sem ég myndi kalla últramódern fararmáti, hún rennur þægilega eftir teinunum, er hrein og loftkæld og auðveld í notkun. Við fórum út á Ratchadamri stöð og gengum þaðan yfir í garðinn. Þar bættumst við í hóp skokkandi og hlaupandi Tælendinga, frá 12 til 82 ára. Við létum okkur nægja að ganga í rólegheitum eftir fallegu hlaupabrautinni sem liggur samsíða stilltu vatni. Við fundum reyndar lítið útiþrek sem við prufuðum, ég kíkti á göngubrautina og Baldur gerði upphífur. Því miður var bekkpressan lok, lok og læs.

Á slaginu sex fór þjóðsöngurinn að óma úr nærliggjandi hátölurum og þá var sem mynd á skjá hefði verið fryst því allir stöðvuðu í miðju spori til að hlýða á. Þegar þeim álögum var létt héldum við röltinu áfram og gengum fram á fólk í tai chi og jóga, horfðum á heilan her af fólki í úti aerobic tíma og aðra í badmínton. Loks áðum við á bekk við leikvöllinn og fylgdumst með litlum ungum klifra í rennibrautum og róla sér til himins. Þegar tekið var að skyggja spegluðust upplýstu skýjakljúfarnir svo fallega í vatninu, einkar ljóðrænt. Sáum líka tvær ponkulitlar kisur, önnur hvít, hin svört.

Frá garðinum gengum við eftir Th Silom götu með öllum sínum verslunum og sölubásum og varla að þverfótað væri fyrir varningi. Fengum okkur síðan kvöldmat á tælenskum heilsustað, Wai Thai. Baldur segir að rauði drekasorbetinn þar sé góður, ég segi að mangósorbetinn þeirra beri sterkan keim af kardímommum.

Engin ummæli: