Eftir bátsferðina um Ha Long flóa í dag ákváðum við að ganga frá höfninni heim á hótel og gæti ég best trúað að það væri um hálftíma ganga. En það var heitt og rakt á göngunni svo svitinn perlaði framan í okkur, hreinlega bogaði af enni okkar. Sem betur fer fundum við loftkælt kaffihús á leiðinni og leituðum skjóls þar.
Ég ákvað að panta mér Shirley Temple mocktail : epla- og appelsínusafi, Sprite og Grenadine síróp. Drykkurinn var borinn fram í háu glasi með kokteilpinna, regnhlíf og lime sneið, sem sagt öllu til tjaldað. Nema hvað þegar ég bar drykkinn upp að vörunum tók ég eftir litlum, svörtum doppum á floti í drykknum og þegar ég veiddi eina doppuna upp úr komst ég að raun um að þetta voru maurar. Maurar í mocktailnum mínum! Og fluga í súpunni í gær!
Ég held að enginn geti álasað mér fyrir að vilja komast frá Ha Long sem fyrst, það er augljóslega verið að byrla mér skorkvikindum. Baldur heldur að sósíalistarnir telji mig til óvina ríkisstjórnarinnar, ég held að þeir séu bara að reyna að vera andstyggilegir við mig.
2 ummæli:
Drykkur thessi er i miklu uppahaldi hja henni Unni Osk.
En varla með maurum, eða hvað?
Skrifa ummæli