Þegar maður lætur berast á öldum örlaganna rekur mann oft á góða staði. Að þessu sinni rak okkur á bar Jesse James, amerískan veitingastað með mexíkósku ívafi. Orðið ívaf er sérdeilis viðeigandi þar sem við pöntuðum okkur nokkurs konar ívaf: baunir og úrval grænmetis vafið í væna búrrítu með salsa, sýrðum rjóma og öllu tilheyrandi.
Þetta var reyndar önnur heimsókn okkar til Jesses og hefur dómnefnd veitingastaða í Suðaustur Asíu og nágrenni þegar fengið fjárveitingu fyrir þriðju heimsókninni. Það er skylda okkar sem sjálfskipaðrar dómnefndar að veita almennilega úttekt og þar sem nachós með jalapeño, baunum, sýrðum rjóma og bráðnum osti hafa ekki enn fengið einkunn neyðumst við til að fara aftur.
Ekki veit ég hvenær Jesse karlinn hafði tíma til að sanka að sér öllum þessum girnilegu uppskriftum eða koma sér til Himalaya. Hann hefur augljóslega ekki verið allur þar sem hann var séður og er dómnefndin sammála um að bestu búrríturnar séu frá honum komnar.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli