Um helgina fórum við á Akureyri í landsmótshugleiðingum. Við mættum á svæðið seint á föstudagskvöldi og vöknuðum snemma á laugardagsmorgni. Verkefni dagsins var að synda yfir Eyjaförðinn. Ásdís var klappliðið mitt og ég var þátttakandi á landsmóti ungmennafélaga :)
Siglt var með sjósundsfólk á ská yfir Eyjafjörðinn frá líkamsræktarstöðinni Átaki inn eftir. Þegar jullan var komin langleiðina yfir fjörðinn var sundfólk rekið frá borði og í land þaðan sem leikar hófust.
Blíðskaparveður var á svæðinu, sól og sjórinn á bilinu 10-12 gráður. Um miðjan fjörðinn var nokkur alda og straumur, sem gerðu sundið bara skemmtilegra, og fýllinn dýfði sér reglulega að manni í von um að fá að plokka eins og eitt auga eða tvö fyrir svanga unga. Hrekkjusvínið ég stóðst vitanlega ekki mátið að gusa svolítið yfir fiðurpúðana hvenær sem færi gafst.
Tilfinningin að synda á þessum slóðum er talsvert frábrugðin öðru sjósundi sem ég hef reynt og hef ég hoppað útí nokkuð víða. Sjórinn er svo útþynntur af stórum og vatnsmiklum ám að vart má greina saltbragð af honum. Vegna þessa er tilfinningin líkari því að vera í ölduglöðu ferskvatni en sjó.
Sundið sóttist vel og skiluðu allir sér í land með jafnmörg augu og lagt var af stað með. Eftir sund var svo legið í potti og gufu um hríð til að ná almennilegum hita í mannskapinn. Afrek af þessu tagi kalla á veisluhöld og fóru þau prúðmannlega fram á Bláu könnunni.
Að sundinu frátöldu vorum við ekki að neinu leyti í tygjum við landsmótið, dvöldum á tjaldstæðinu í Hrafnagili og heimsóttum frábæran bændamarkað þar á sunnudeginum. Á einhverjum tímapunkti röltum við upp í hlíðar meðfram Finnsstaðaá, pikknikkuðum og lögðum okkur í glampandi sól, mildum andvara, með félagsskap af flugnasuði og sauðfé.
Þessa helgi ókum við líka út á Tröllaskaga og skoðuðum bæði náttúru og krummaskuð, kíktum á Hjalteyri, stoppuðum til að fara í sund á Ólafsfirði og fengum okkur pizzu á Siglufirði. Á bakaleiðinni skoðuðum við Hofsós og Hóla í Hjaltadal, huggulegt. Á þriðjudeginum pökkuðum við saman og héldum suður eftir en fórum löngu leiðina, sem er Skagaströnd. Mæli eindregið með göngu að Glerhallavík, rétt hjá Grettislaug. Þá rigndi heil ósköp á okkur og sjórinn var eins og úrillur dreki með það að markmiði að ná í alla sem færu of nálægt, mögnuð upplifun og yndisleg snerting við hreinan náttúrukraft. Skyldustopp var í Kántríbæ áður en við lögðum í lokalegginn heim.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli