Baldur ætlaði í sund í dag með vini sínum Torfa til að ná úr sér kvefinu en varð ekki kápan úr því klæðinu. Hann fór og sótti Torfa og sat þar í mestu makindum þegar var Torfi og kærastan þurftu skyndilega að rjúka upp á slysó. Hann hafði misst þunga hurð á fótinn þannig að tánöglin splundraðist.
Ég vona svo sannarlega að allt sé í keyinu núna, það er ekkert grín að missa nögl. Ég missti nefnilega einu sinni nögl sjálf, það var nögl af öðrum hvorum þumlinum minnir mig og það gerðist í eltingaleik. Ég var að elta strákinn sem ég var svo skotin í, hann Ragnar, en hann var sá gáfaðasti í bekknum og kunni stjörnufræði. Ég elti hann svo ákaft í þessum eltingaleik að ég hrasaði og datt, rann eftir malbikinu og sat eftir með níu neglur. Þá var ég sjö ára.
Við fórum í heimsókn til Óla afa í dag, hann átti nefnilega afmæli 2. nóvember og varð 85 ára gamall. Við kíktum þangað með pabba og vinkonu hans, henni Siggu. Afi var í feikistuði og sagði okkur sögur af kisum og hestum, en þetta eru þær skepnur sem hann hefur mest dálæti á. Þegar umræðan fór hins vegar að snúast um að lóga dýrum, henda kettlingum út í sjó í plastpoka og skjóta hunda, var mér nóg boðið. Þetta var víst gert hér áður fyrr og það getur vel verið að þetta tíðkist enn án þess að ég hafi hugmynd um það. Ég vona þó ekki.
Matarboðið góða var á sínum stað í dag, við fengum frábæra súpu með linsubaunum, hrísgraunum og rófum. Svo fengum við líka æðislegan hnetuís í eftirrétt, namm. Það kom upp smá ágreiningur um heita potta, ég vildi meina að sá allra heitasti í Árbæjarlaug væri mjög heitur (sem hann er!) en þá sögðu Ólöf og Jói að hann væri nú bara ekki neitt neitt, Ólöf kallaði hann blöðrubólgupott því maður fengi blöðrubólgu af því að sitja í þessu kalda vatni og Jói sagði að maður þyrfti að vera í lopapeysu í slíkum pottum! Ýkjurnar, ég varð alveg orðlaus :)
Þyngd og þroski: Núna eru strákarnir komnir í eigið búr. Við fengum lánað hamstrabúr og þar kúra þeir núna. Þeir eru sívakandi og farnir að éta arfa big time og drekka vatn. Bjartur er núna 140 g og Rúdólfur er orðin heil 120 g. Það er ekkert smá hvað barnið hefur þyngst undanfarið.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli