laugardagur, 3. nóvember 2001

Jólastúss

Við vorum mjög forsjál í dag því við fórum á alla útsölumarkaði borgarinnar og versluðum inn jólagjafir. Við keyptum sex jólagjafir og eina afmælisgjöf. Við nennum nefnilega ekki að lenda í einhverju stressi rétt fyrir jólin.

Við erum nú samt ekki búin að kaupa allar gjafirnar og ætli við geymum ekki eina tvær til Þorláksmessu og förum þá á Laugarveginn. Ég hef reyndar bara einu sinni farið á Laugarveginn á Þorláksmessu og það finnst mér ekki nógu gott, þar er nefnilega allt fjörið.

Við enduðum síðan þennan jólatúr á Pítunni í Skipholtinu. Þangað hafði hvorugt okkar komið í mörg, mörg ár og margt hafði breyst þ.á.m. inngangurinn sem var komin á aðra hlið. Við stóðum því frekar vandræðaleg fyrir framan fyrrverandi innganginn og ég er viss um að gestirnir fyrir innan hafi haldið að við værum svangir gluggagægjar.

Ætli þetta jólastúss hafi ekki sett okkur í einhvern jólagír. Einhverra hluta vegna enduðum við í Rúmfatalagernum að skoða jólagardínur og keyptum jóladúk, jólaservettur og jólapappír. Nú geta þeir sem búsettir eru erlendis farið að vænta jólagjafa í pósti innan tíðar hint hint. Fyrst verð ég þó að finna þessa litlu jólamerkimiða sem maður setur á pakkana, ég get eiginlega ekki byrjað að pakka fyrr en þá.

Þegar við komum heim settum við síðan smá jólatónlist á, þvílíkt stuð, og Baldur fór inn í geymslu og setti gervijólatréð, sem hann fékk frá Pétri, saman. Ok, ok, verið róleg við erum ekki farin að skreyta eða neitt, þetta var bara svona prófraun, svona til að sjá hvernig tréð liti út og hvort það væri yfir höfuð jólahæft.

Þyngd og þroski: Strákarnir eru í óðaönn að verða stálpaðar kanínur. Í dag leyfðum við þeim að hlaupa frjálsum á gólfinu og það gerðu þeir með bestu lyst. Núna eru þeir báðir farnir að hlaupa eins og kanínur, svona hoppa með afturfótunum. Bjartur er þó greinilega í betri þjálfun einhverra hluta vegna.

Þeir eru strax farnir að óhlýðnast, við vorum að koma í veg fyrir að þeir færu undir kommóðuna og því sat ég á gólfinu og vísaði þeim frá eins og hershöfðingi. Þeir létu það ekki á sig fá og gerðu hernaðaráætlun sem fólst í því að einn hljóp af stað í átt að komóðunni og á meðan ég var upptekin við að hamla honum leið þangað undir kom hinn hlaupandi úr annarri átt. Ég átti því í fullu fangi með þessa tvo kanínustráka.

Þeir drukku mikið í dag, Bjartur þyndist um 14 g og er núna 134 g, Rúdólfur drakk 20 g og er núna 108 g!

Engin ummæli: