Ég skrópaði í fyrsta sinn á önninni í dag. Það var í mannfræði barna og þar sem yfirferð á námsefninu er búin skiptir þetta ekki svo svakalegu máli. Ég notaði tímann til að vinna í ritgerðinni og var niðrá bókasafni Kennó (KHÍ) að skoða B.Ed. ritgerðir. Mér fannst þær óvenju óvandaðar og illa unnar en ég reyndi að finna ljósið í þeim og gat nýtt mér orð og orð úr þeim.
Síðan fór ég í liðveisluna eins og venjulega og það gekk vel. Við Baldur fórum með hann upp í kirkju því alla fimmtudaga er þar stund fyrir krakka sem kallast Kirkjuprakkarar. Þarna voru krakkar að keppa í bandí-móti og það voru svaka mikil læti og mikið fjör.
Við fórum síðan á bókasafnið í Gerðubergi en það hefur lengi verið mitt uppáhaldsbókasafn. Ég var að leita að bók um braggabörn sem kom út í fyrra en hún var ekki inni. En ég græddi eitt á þessari ferð, ég sá að Bókatíðindin eru komin út. Fyrir mér eru Bókatíðindin eins og gimsteinn og því heimtaði ég að fara niður í Kál og kenningu og ná í eitt eintak, vitandi að okkur hafði ekki borist það heim.
Bókatíðindin fengum við ekki því þau voru víst að koma út. Í staðinn skoðuðum við jólabækurnar og þar var af nógu að taka. Ég sá m.a. nýja bók um flökkusagnir úr samtímanum eftir Rakeli Páls. Hún er þjóðfræðingur og kenndi okkur Baldri einmitt í fyrrahaust. Okkur fannst hún alveg frábær kennari og miðað við gluggið í bókina er hún það líka. Þessi fer sko pottþétt á jólalistann minn.
Þyngd og þroski: Jæja, alltaf eru yndin að þroskast og stækka og ef ég vissi ekki að þeir munu ekki fljúga úr hreiðrinu væri ég farin að hafa áhyggjur af því núna. Bjartur var mjög kræfur í dag, gerði sér lítið fyrir og stökk upp úr búrinu. Það var ferlega fyndið að sjá þennan hnoðra stökkva af öllum mætti og enda síðan á hausnum hinu megin við "múrinn". Á morgun er seinasti dagur á spena fyrir þá, þeir verða 4 vikna á morgun og það er eins og Kaníka vita af því því hún virðist hafa mjög litla mjólk. Allavega drukku þeir aðeins um 4-6 g af mjólk og það er bara brotabrot af því sem þeir eru vanir að drekka.
P.s. Það er komin nýr linkur hér til hægri fyrir þá sem eru Harry Potter aðdáendur (eins og ég).
Engin ummæli:
Skrifa ummæli