miðvikudagur, 14. nóvember 2001

Réttarhöld

Ég var að koma úr tíma í kenningum II, og þar sem næsti tími byrja ekki fyrr en eftir 40 mínútur ákvað ég að vera skynsöm og nota tímann og skrifa færslu dagsins. Þetta var óvenjulega skiljanlegur tími í kenningum enda sagði kennarinn sjálfur að "auðveldara væri að renna í gegnum þennan lygna sjó". Lesefnið sem við höfum áður verið með var greinilega öldugangssjór.

Í lok tímans voru síðan kynningar nemenda á ritgerðarefni og Lísa vinkona var með sína kynningu. Hún er reyndar ekki búin að ákveða hvað hún ætlar að skrifa um en ég hvatti hana samt til að halda kynninguna því maður getur alltaf grætt á því þegar samnemendur faraað spyrja og gefa manni hugmyndir.

En þar sem Lísa er engin venjuleg þá varð ekkert slíkt upp á teninginn. Hún sagðist því miður vera mjög illa undirbúin en að í gærkvöldi hafi verið sjónvarpskvöld og hún sæi ekkert eftir því. Eina spurningin sem hún fékk frá okkur krökkunum var hvað hún var að glápa á!

Annar er það helst að frétta að lögreglan hringdi í mig í morgun og vildi fá að tala við Baldur. Ég lét hana fá vinnusímann hans og beið síðan spennt eftir að hann hringdi heim. Þegar hann gerði það sagði hann mér að búið væri að boða hann í réttarsal sem vitni í ölvunarakstursmáli.

Þannig er sko mál með vexti að í september fórum við að sjá Með fulla vasa af grjóti, voða gaman. Þegar við komum síðan út úr leikhúsinu og að bílnum, sem í þetta sinn var jeppinn hennar Ólafar ömmu, var löggann að sniglast í kringum hann. Við héldum fyrst að við hefðum lagt ólöglega og okkur langaði helst að labba bara framhjá og þykjast ekkert kannast við skrjóðann. Þegar löggann afturámóti fór að taka niður bílnúmerið skiptum við snarlega um skoðun, hlupum til og spurðum hvað væri á seið.

Þá kom í ljós að stelpuhópur hafði orðið vitni að því að bíll keyrði beint á stuðarann á jeppanum og þær tóku niður bílnúmerið og létu lögguna vita. Síðan virðist hafa komið í ljós að ökumaðurinn, sem stakk af, hafi verið drukkinn og um það snýst þetta allt. Mér líður eins og ég sé í nýrri syrpu af Derrick eða Mattlock.

Engin ummæli: