mánudagur, 12. nóvember 2001

Átveislan mikla

Jæja ætli það sé ekki best að segja frá undanförnum dögum. Helgin var moggahelgi og á laugardeginum fór ég í þrjár heimsóknir. Það byrjaði á því að ég renndi moggabílnum í hlað hjá Ólöfu ömmu og þáði veitingar. Næsta heimsókn var um kvöldið þar sem ég og Ásdís heimsóttum Baddý, mömmu Ásdísar, og Sigga. Þriðja heimsóknin var svo til Bjarna vinar míns úr vinnunni sem átti 25 ára afmæli.

Á sunnudeginum fór ég svo í mat til Stellu ömmu og Péturs afa og fór ég þaðan eins og uppstoppaður fugl. Með herkjum kom ég mér inn í moggabílinn aftur og kláraði vinnudaginn. Þá mætti ætla að matarboðin væru nú liðin hjá. Það er ýmislegt sem má halda en staðreyndir málsins eru ljósar og samkvæmt vitnum þá fórum við í mat til pabba og mömmu á sunnudagskvöldið þar sem ég var meðhöndlaður eins og kalkúnn sem þyrfti fyllingu.

Það er sumsé búið að vera þó nokkuð ráp á okkur undanfarna daga og hefur ekki gefist tími til að skrifa dagbók á milli máltíða og eftir öll þessi hátíðahöld og átveislur þá var ákveðið að hafa látlausan og einfaldan kvöldmat í kvöld, brauð með hnetusmjöri. Að lokum vil ég hvetja gesti okkar að nýta sér vefspjallið og spjalla þar um heima og geima.

Engin ummæli: