Jæja, þá er komið að mér að vera andvaka. Einhverra hluta vegna get ég ómögulega fest svefn og finnst mér það einstaklega taugatrekkjandi. Og hver þekkir ekki afleiðingar þess að stessast upp við slíkar aðstæður og verða fyrir ofsóknum hugsana á borð við: Ef ég sofna núna fæ ég svo og svo mikinn svefn...
Fátt er þó svo með öllu illt að ekki boði nokkuð gott. Við Baldur kíktum síðdegis á borgarbókasafnið til að skila bók sem ég var með á skammtímaláni. Rakst ég þá á aðra bók á skammtímaláni sem mig hefur langað að lesa síðan um jólin. Þetta er bókin Friðþægin eftir Ian McEwan. Nú held ég að sé ráð að glugga í skruddu og sjá hvort hún búi yfir svæfingarmætti.