Þessi uppskrift kemur úr tveimur áttum: frá Sollu Eiríks og frá hráfæðisdrottningunni Karen Knowler. Í fréttabréfinu hennar Karenar um daginn var að finna uppskrift að marineruðu grænmeti sem mér leist mjög vel á að prófa. Síðan var ég að fletta í gegnum bókina hennar Sollu, Heilsurétti Hagkaupa, og rakst þá á sambærilega uppskrift að marineruðu grænmeti.
Svo ég henti saman í salat og notaði það sem ég átti í ísskápnum en studdist við dressinguna frá Sollu því bara við það að renna augunum yfir innihaldslistann fóru munnkirtlarnir að framleiða munnvatn og ég var næstum því farin að slefa.
Í stað gúrku má nota kúrbít og þá ætti salatið líka að geymast lengur í ísskáp. Svona marinerað grænmeti er frábært með öllum mat. Ég hef reyndar aðallega verið að borða þetta sem salat í hádegismat eða hvenær sem grænmetishungrið kikkar inn. Þetta salat er svo gott að maður sleikir diskinn á eftir, trúið mér!
Ég tek fram að ég keypti mér bókina hennar Sollu um daginn, reyndar var það eitt af fyrstu verkum mínum við komuna til landsins, og mér líst alveg rosalega vel á hana. Og fyrst ég er að birta uppskrift úr bókinni hennar er alveg augljóst að ég mæli með bókinni!
Hvað:
Hráefni
1 brokkolíhaus
hálf rauð papríka
hálf gul papríka
hálf gúrka/kúrbítur
2 gulrætur, rifnar
4 stilkar af vorlauk
handfylli af ferskri steinselju, niðursneiddri
Dressing
3 msk olívuolía
1 msk ristuð semsamolía
2 msk tamarisósa
2 msk sítrónusafi
2 msk ferskur engifersafi*
* Til að ná safa úr fersku engiferi þarf að rífa niður eins og 3 sm bút og kreista svo safann úr rifna engiferinu
Hvernig:
Brokkolíið klofið niður í smærri bita, papríkan skorin í teninga, gúrka/kúrbítur skorið í sneiðar, gulrætur rifnar niður, vorlaukur og steinselja saxað. Blandað saman í góðri skál.
Dressingin: Öllum innihaldsefnum blandað saman í smærri skál og svo hellt yfir grænmetið. Hræra dressingunni vel saman við grænmetið. Láta standa inn í ísskáp í 10-30 mínútur.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli