mánudagur, 26. nóvember 2012

Helgin sem leið

Þetta var sannarlega jólahelgi helgin sem leið!

Á laugardaginn fór ég og tók jólamyndir af litlu skáfrænkunum í og við Ásmundarsafn. Það var svakalega hálka á vegum og því tóku reglurnar við myndatökuna mið af því:

Leika sér og hafa gaman
Engin gervibros
Bannað að detta á bossann

Þess ber að geta að þær duttu báðar á bossann og ljósmyndarinn tók líka nokkra góða spretti á svellinu, svona óvænt og óglæsilega.

Þegar við vorum orðnar kaldar af því að máta okkur við styttur og hlaupa um grasbalann við safnið fórum við inn og hlýjuðum okkur. Fengum piparkökur og lékum við mandarínur. Sú eldri heimtaði að fá að sýna mér hvísluvegginn og svo sátum við þrjár og hvísluðust á um prumpusvín og önnur dýr merkurinnar.

Á sunnudaginn tókum við Baldur strætó upp í Ikea og gengum frá Góu yfir hraunið til að komast í stórverslunina. Það er heppilegt hvað hraunið er hrufótt, hálkan bítur bara ekkert á það. Í Ikea vorum við að jólajólast eins og allir hinir, fengum meira að segja að smakka nýbakaðar engifersmákökur og það var eins og að stíga inn í barnæskuna.

Enduðum svo sunnudaginn á því að kíkja í Bíó Paradís á myndina Safety Not Guaranteed. Við skötuhjú vorum ekki alveg á einu máli um ágæti þeirra myndar en það er alltaf gaman að fara frítt í bíó og narta í vel saltað popp.

En hvað er annars með veðrið, á ekkert að fara að snjóa hérna?

Engin ummæli: