sunnudagur, 18. nóvember 2012

Bæjarferð með markmiði

Ég vaknaði í gærmorgun og það eina sem mig langaði að gera var að lesa. Lesa lesa lesa. Ég tók mér pásu frá lestri núna í meira en mánuð og ég get alveg sagt að sú tilraun er ekki tilraunarinnar virði. Páraði niður í miklum flýti bækur sem mig langaði að lesa, sagði svo við Baldur að við værum að fara í göngutúr, langan og strangan, "taktu bakpokann með!"

Það var ferlega kalt og hvasst. Við gengum meðfram Sæbrautinni og mættum þar vel klæddum ferðamönnum með ýfðar og rauðar kinnar. Við vorum auðvitað engu betri. Biðum eftir því að kæmi að okkur hjá Sólfarinu, tókum þá mynd. Það verður vel hált á pallinum undir farinu og þeir liðugustu geta hæglega misst fótana og lent í splitti eða spíkati, nú eða hvoru tveggja, en þó ekki á sama tíma (vona ég).

Þegar við vorum komin niður í Tryggvagötu áttuðum við okkur á því að við vorum of tímanlega í því. Hentum okkur inn á næsta kaffihús sem var bókakaffi Iðu þar sem Baldur húrraði yfir því að fá svona óvænta afsökun til að panta sér eðalespresso á meðan ég fletti í gegnum bók um huldufólk á ensku.

Á bókasafninu tókst mér að ná í allar bækurnar sem ég ætlaði mér og rúmlega það - auðvitað. Kom engum á óvart. Troðfyllti bakpokann og skellti honum svo á axlirnar hans Baldurs, ah minn eigin burðarklár.

Við vorum orðin glorsoltin þegar hér var komið sögu svo við örkuðum lengri leiðina upp á Garðinn og nýttum okkur hálf/hálf möguleikann á matseðli: hálfa súpu og hálfan aðalrétt. Það er allt svo gott á Garðinum, það er engu lagi líkt. Splæstum í gulrótakökusneið í eftirrétt, sem líka er hægt að fá hálfa ef maður vill. En hver vill svo sem hálfa sneið af gulrótaköku?

Nú er húsið fullt af bókum og sunnudagurinn teygir úr sér og ef ég stikla á steinunum sem ég kasta á undan mér kem ég til með að ná langt með lestur í dag. Bara kos kos kos, heimakos.


Ég og Sólfarið
 
Untitled
 
Fimma!
 
Untitled
 
Setið á grein
 
Borði á grein
 
Súpa og hummus á Garðinum

Engin ummæli: