Í dag var moggadagur hjá mér, fyrir þá sem ekki vita þá vinn ég aðra hverja helgi á Morgunblaðinu sem bílstjóri. Þegar ég loksins náði að rusla mér af stað út i bíl þá brá mér nú töluvert, það var klaki út um allt og engin skafa í bílnum. Þá var það bara harkan, guðsgafflarnir. Skjóni (mazda 1987) rauk í gang með hávaða og látum og skilaði mér á því sem næst réttum tíma til vinnu. Ég fór og gaf Kalla afa og Ólaf ömmu blaðið og fékk í staðinn franskar kartöflur sem ég færði Ásdísi samviskusamlega og varð það til þess að ég varð að kaupa meira af þeim eftir vinnu hjá Góa í Þrumuvideo.
Þegar ég var nýkominn heim og rétt búinn að leggjast upp í rúm þá hringdi síminn. Það var Svenni vinur minn að ná í mig í sund, þar sem við láum svo í leti dágóða stund (pottur, gufa, pottur, gufa, pottur...) en mönnuðum okkur svo í 50 rólega skriðsundsmetra. Þegar ég kom svo heim aftur fór ég að segja Ásdísi frá því að kötturinn hans Svenna, Grettir, væri nú orðinn ansi feitur. Ásdís svaraði heldur fálega þannig að ég sagði, svona til að undirstrika fyrri orð, að hann væri riiisastóór og feeeituur. Þá kom í ljós að Ásdísi hafði eitthvað misheyrst og hélt ég hefði sagt að Svenni væri feitur eins og Grettir (Garfield) og þegar ég sagði að hann væri risastór þá varð hún nú að segja að hún væri ósammála og skildi ekki alveg hvað ég væri að fara. Eftir þennan ágæta misskilning ákvað ég að sjóða grænmeti og kartöflur sem við borðuðum með bestu lyst eftir að hafa bætt á það slatta af smjöri og þess má til gamans geta að ég, alveg sjálfur, bjó nú barasta til kryddsmjör, jahá og hananú. Það kom ágætlega út og kemur uppskrift kannski síðar. Ég á nefnilega eftir að gera langtímarannsókn á umræddu kryddsmjöri.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli