Í gærkvöldi fórum við á tónleika með bretónsku rokkhljómsveitinni Merzhin í Alliance Française. Vart þarf að taka það fram en stemningin var rosaleg og stuðið mikið. Gott rokk á ferðinni með kunnuglegum þjóðlagaáhrifum, góðum hljóðfæraleik og söng. Fullt var útúr dyrum og var gaman að sjá að þarna var samankomið fólk á öllum aldri.
Þegar Merzhin hafði lokið sínu prógrammi stigu tveir indverskir flautuleikarar á svið og léku fyrir gesti. Eitthvað fannst bretónska trommaranum þeir einmana svo hann læddist á sviðið og sló létt á húðir í bakgrunninn. Þetta fannst gítarleikaranum sniðugt og nokkrum mínútum síðar voru allir Bretónarnir komnir á sviðið og farnir að djamma með flautuleikurunum, fjölþjóðleg gæðasulta.
Á leiðinni út heilsuðum við aðeins upp á hljómsveitarmeðlimi en bara stutt því þeir áttu fullt í fangi með að sinna viðtölum. Samtalið varð þó nógu langt til að ástæða væri til að kveðja og það á kumpánlegan, bretónskan máta: Kenavo!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli