föstudagur, 26. janúar 2007

Heimsókn á munaðarleysingjahælið

Við heimsóttum í dag munaðarleysingjahælið sem MASARD rekur. Það heitir Ashanilaya og er í Ejipura hverfinu. Á heimilinu búa um 40 börn og starfsmenn eru fimm talsins.

Þegar við stigum út úr autonum þyrptust börnin að okkur, spyrjandi okkur að nafni og vildu fá að taka í höndina á okkur. Við fengum sýnisferð um húsið og leist okkur vel á. Stelpurnar gista saman í herbergi á einni hæð og strákarnir á annarri hæð. Þá hafa þau til umráða tölvuherbergi þar sem kennsla á tölvur fer fram, í samveruherberginu taka þau á móti gestum og á lóðinni fyrir utan húsið eru leiktæki sem gefa börnunum færi á að leika sér.

Það var sérlega heppilegt að við völdum að heimsækja heimilið í dag því velgjörðafólk Ashanilaya hafði boðað komu sína á heimilið í því skyni að halda bænastund með börnunum. Þó stofnandi heimilisins, Fernandes, sé kristinn og börnunum því kennd kristin fræði, var bænastundin til minningar um vin Fernandes sem var hindúi og því urðum við vitni að hindúa bænastund. Bænastundin minnti að mörgu leyti á jógatíma: fyrst voru börnin látin loka augunum og vísa lófunum upp, þá var ómað og loks kyrjað.

Að bænastund lokinni fengu börnin og gestirnir sérstakan hátíðarmat: grillaðan makríl. Ég smakkaði fiskinn reyndar ekki en get staðfest að pula hrísgjónrarétturinn sem ég fékk var ansi góður.

Annars má ekki gleyma að minnast á að í dag er hvoru tveggja þjóðhátíðardagur Indverja og afmælisdagur pabba. Hamingjuóskir til allra!

Engin ummæli: