Bók bókanna þessa daganna er að sjálfsögðu Indlandsbókin góða sem við keyptum í fyrrasumar. Þó við höfum gott úrval af öðrum bókum hér á Palolem strönd kíkjum við nær daglega í Indlandsbókina, ýmist til að fá upplýsingar um staðinn sem við erum á eða til að skipuleggja seinni tíma ferðir.
Eitt einkenni svona ferðabóka er að pappírinn í þeim er mjög þunnur. Yfirleitt eru þær nefnilega upp á þúsund blaðsíður og mega ekki vera of þungar í bakboka ferðalanga. Fyrir vikið vilja blaðsíðurnar gjarnan halda hópinn í þeim skilningi að maður flettir oft yfir heila opnu án þess að gera sér grein fyrir því.
Áðan var Baldur til að mynda að lesa mjög háfleygan texta um tíbeska hugleiðslu og lækningaaðferðir og var orðinn mjög uppnuminn. Hins vegar varð honum ansi hverft við þegar hann fletti og hélt lestrinum áfram því textinn hafði skyndilega tapað hátíðleika sínum, misst marks og valdið Baldri vonbrigðum. Það sem Baldur las var: India, with its large Tibetan diaspora, has become a major centre for those wanting to study Tibetan (flett yfir á nýja síðu) bus station.
Ég vildi að allir dagar byrjuðu á svona fyndnum mislestri, ég skellihló nefnilega vel og lengi.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli