Ég mætti til fyrsta indverska vinnudagsins í dag og virðist hafa lifað það af :0)
Sami bílstjórinn og sótti okkur Baldur á rútustöðina koma og skutlaði mér í vinnuna. Það er reyndar hefð fyrir því að fulltrúi frá Aiesec komi með þennan fyrsta dag en mér stóð það einhverra hluta vegna ekki til boða. Ég grét það nú reyndar ekki mjög sárt.
Ég er að vinna hjá frjálsum félagasamtökum (NGO) sem kallast MASARD. Þau hafa á sínum snærum munaðarleysingjahælið Ashanilaya, styðja fátæk börn úr slömmunum og veita fólki smálán til að koma sér upp smáviðskiptum eins og götusölu. Stofnandi og aðalsprautan er Dr. J.L. Fernandes sem einmitt er nýi yfirmaðurinn minn.
Á þessum fyrsta degi bauð Fernandes mér í hádegismat á hóteli í grennd við skrifstofuna, en MASARD er með aðsetur í Mittel Towers á M.G. Road, háhýsi sem hefur enga 13. hæð. Mér leið eins og Hollywood stjörnu í þessum hádegismati því ég var sérstaklega beðin um að skrifa ummæli um upplifunina í þartilgerða bók.
Eftir hádegismat sat ég á spjalli við samstarfskonur mínar tvær, önnur er Elizabeth og hin er Asha. Þær vinna á skrifstofunni við að svara í síma og fara í sendiferðir og þess á milli kíkja þær í slömmin og að huga að börnum þar. Mitt starf verður að safna styrkjum fyrir samtökin, uppfæra heimasíðuna, útbúa fréttabréf og heimsækja munaðarleysingjahælið. Ég vona að nái að gera þetta allt, bæði er þetta stuttur tími og síðan er ég þegar búin að fá nasaþef af hægaganginum sem indverskar stofnanir eru þekktar fyrir.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli