Þá erum við komin á áfangastaðinn okkar, Bangalore, og hér verðum við næstu átta vikurnar. Við komum hingað í fyrradag ferðaþreytt og rykug eftir 13 tíma skrölt í næturrútu. Í svona næturrútum er hvorki klósett né farangursrými en þar eru kojur og kakkalakkar, æði.
Það þýddi að við sváfum með farangurinn til fóta og urðum að sofa laust til að missa ekki af pissustoppunum. Í einu þeirra náðum við að vakna og hlaupa í runna við veginn til að pissa. Það gekk reyndar ekki þrautarlaust því lífsglaður hundur vildi endilega leika og gerði ekki annað en ráðast á lappirnar okkar. Ekki nóg með að það var mið nótt og við nývöknuð og alveg á leiðinni í háttinn aftur heldur dundi viðvörun í höfðinu á mér: hundaæði. Ég var í fyrsta og eflaust ekki seinasta skiptið þakklát fyrir að hafa spreðað í bólusetningu gegn hundaæði.
Annað sem gerði þessa næturferð eftirminnilega var kuldinn. Ég hafði búið mig undir svefnleysi af völdum hristings en þegar til kastanna kom var það kuldinn sem nísti inn að beini. Um miðja nótt þegar hvað kaldast var varð ég að gjöra svo vel og klæða mig í alla boli og peysur sem ég fann, breiða yfir mig handklæði, binda slæðu um höfuðið og kúra mig þétt að Baldri.
Þegar við komum svo til Bangalore tók á móti okkur bílstjóri sem keyrði okkur á gistiheimilið sem Aiesec hafði reddað okkur. Það kom í ljós að öll gistiheimili sem Aiesec hefur yfir að ráða eru kynjaskipt enda lítið um að pör komi í starfaskipti á þeirra vegum. Svo við gistum á sitthvoru heimilinu í nokkurra mínútna göngufjarlægð frá hvort öðru.
Restin af þessum fyrsta degi fór í að hitta fulltrúa frá Aiesec, Archie, sem fór með okkur í auto (léttivagni) niður í bæ, sýndi okkur M.G. Road og helstu verslunarmiðstöðvar, bestu bókabúðina og útvegaði okkur kortabók og símanúmer.
Indversku símanúmerin gilda meðan við erum í Bangalore.
Ásdís: +91 99 86 60 96 30
Baldur: +91 99 86 60 96 31
Engin ummæli:
Skrifa ummæli