fimmtudagur, 4. janúar 2007

Þægileg aðlögun

Þá er dvölin okkar hér í Goa að renna sitt skeið, í kvöld tökum við næturrútuna til Bangalore. Þó vissulega sé spennandi kafli framundan er ég treg til að yfirgefa Goa því hér höfum við haft það svo gott. Við erum búin að njóta þess að slappa af, lesa góðar bækur og borða góða matinn en Goa er einmitt rómuð fyrir sérstaklega gómsæta matseld, blöndu af portúgölskum og indverskum áhrifum (enda Goa fyrrum portúgölsk nýlenda).

Ekki nóg með að við höfum notið þess að vera í fríi upp á hvern einasta dag heldur hafa þessar tvær vikur verið ansi þægileg aðlögun að Indlandi. Nú er maður búinn að venjast því að úða á sig flugnafælu við sólsetur, taka alltaf með sér klósettpappír hvert sem maður fer, þurfa að prútta um verð á flestu og vera alltaf með starandi augnráð föst við sig. Þó svo að Goa sé vissulega mild útgáfa af Indlandi vona ég að þessi lærdómur sem við höfum dregið komi að góðum notum í Bangalore.

Ég minni á myndaalbúmið, myndir frá Palolem eru komnar á netið og þær má nálgast hér.

Engin ummæli: