Undanfarnar vikur og mánuði, eða allt síðan ég kláraði MA ritgerðina, hefur þörfin fyrir að skapa eitthvað verið að angra mig. Nánar tiltekið hefur það verið skriftarþörfin - handakláði - sem hefur plagað mig enda sakna ég tímans þegar ég vann á MA ritgerðinni.
Undanfarin kvöld hef ég sest niður með tölvuna í fanginu og fundist ég þurfa að skrifa eitthvað en ekki vitað hvað eða hvernig. Um daginn keypti ég bókina Creative writing the easy way og þar eru nokkrar góðar ráðleggingar og leiðbeiningar. Í gær fékk ég síðan aðgang að rithringnum og ég hef eytt frítíma mínum í að lesa skrif annarra og umræður um skrif.
Ein af ráðleggingum bókarinnar er að ganga ávallt með litla stílabók á sér og krota í hana allar hugmyndir. Alla vikuna er ég því búin að pára í glósubókina hugleiðingar og hugdettur hvar sem ég er stödd (erfiðast að lenda í því í strætó að fá hugmynd, eða þegar maður er nýlagstur til svefns). Þá hef ég líka verið að gera æfingar upp úr bókinni og er búin að komast að því að skrifin þarf að nálgast eins og allt annað: skipulega og markvisst. Ef það hljómar óspennandi í eyrum einhverja get ég glatt ykkur með því að ég er núna mjög spennt fyrir skrifunum og næ núna að fullnægja skriftarþörfinni.
Mig hefur alltaf dreymt um að vera ein af þeim sem segist hafa gengið með bók í maganum, ég tala nú ekki um að vera ein af þeim sem er með nokkur handrit tilbúin í handraðanum. Hver veit nema ég láti þann draum rætast.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli