föstudagur, 19. janúar 2007

Mótmæli í uppsiglingu

Á leiðinni heim úr vinnunni í dag kom babb í bátinn. Öllum farþegum var hent úr vagninum á Cubbons Road og átti það sama við um alla vagna sem leið áttu frá miðbænum niður að stóru strætóstöðinni í Shivaji Nagar.

Ég stóð stjörf á gagnstéttinni og fylgdist með öðrum farþegum sem af öryggi tóku stefnuna þangað sem þeir ætluðu sér. Ég var aftur á móti alveg áttavillt því þennan sama dag hafði ég skilið kortið af borginni eftir heima. Þá gat ég heldur ekki skilið hver ástæðan fyrir þessu öllu var því allar útskýringar höfðu verið gefnar á kannada, tungumáli heimamanna.

Ég gerði það eina sem hægt er í stöðu sem þessari: elti hina. Með því að spyrja til vegar komst ég loks að Indian Express og þaðan þekkti ég leiðina niður í Shivaji Nagar. Á leið minni þangað mætti mér straumurinn af fólki á leið frá Shivaji Nagar, gangandi á götunum þar sem venjulega er þung bílaumferð. Þá glumdu hávær skilaboð í hátölurum í kringum Indian Express sem minnti helst á stríðstíma, við það fóru að renna á mig tvær grímur. Hins vegar reyndust allir vera rólegir og yfirvegaðir svo ég ákvað aftur að gera eins og hinir og vera sjálf róleg og yfirveguð.

Áður en ég náði niður að Shivaji Nagar gekk ég fram á fjöldamótmæli múslíma. Flestir voru hvítklæddir og margir héldu á mynd Saddams Husseins. Ég sneri við á stundinni og hélt aftur til Indian Express. Þangað komu hins vegar engir vagnar og engir autóar voru í umferð svo ég hélt áfram upp Cunningham Road. Plan A var að ná strætó heim og plan B var að setjast inn á Coffee Day og bíða björgunar.

Plan A gekk upp því sem ég gekk meðfram götunni keyrði einn af mínum vögnum framhjá og ég stökk upp í. Ég komst því heim heil á höldnu en varð fyrst skelkuð þegar ég sá verslanir í Frazer Town vera að loka og fólk að flýta sér heim. Strákarnir í Robertson House fræddu mig svo á því að múslímar væru að mótmæla aftöku Saddams Husseins og að borgarbúar væru að búa sig undir óeirðir. Nú er bara að sjá hvernig málin þróast.

Engin ummæli: