Það er ekki heiglum hent að keyra strætó í Bangalore. Það er ekki heldur fyrir heigla að sitja í sem farþegi í strætisvögnum Bangaloreborgar. Vagnstjórarnir víla ekki fyrir sér að keyra farþega niður telji þeir það þjóna sínum hagsmunum, að troða sér inn í vagninn á álagstímum er eins og að ætla sér að sofa í sardínudós og þar að auki verður farþegi að búa yfir þeim hæfileika að stökkva úr ökutæki á ferð.
Ef farþegi er svo heppinn að komast inn í vagn á annað borð taka aðrar pyndingar við. Oftast þarf farþegi að standa og þá er hann iðulega með svarta hárfléttu af einum farþega yfir öxlina á sér, rasskinnina á öðrum í bakinu og kinnina á þeim þriðja á höndinni sem heldur dauðahaldi í nálæga stöng.
Best settur er farþegi fái hann sæti. Samt þarf hann að vara sig á ýmsu. Til að mynda er slæmt að horfa út um framrúðuna, þá blasir við farþeganum brjálæðið sem hér á bæ kallast umferð. Besta ráðið er því að horfa út um hliðarrúðuna. Þá nær farþegi kannski að sjá belju með skærblá horn og rauða dúska bundna við hornin, og bjöllu fasta í dúskunum.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli