Þá hefur ófriðarölduna lægt í bili og er það léttir eftir óeirðahelgina sem leið. Mótmæli múslíma á föstudaginn kynntu svo undir hindúa hér í borg að allan laugardaginn mátti heyra trommuslátt frá mótmælagöngum hindúa sem kalla sig Virat Hindu Sabha. Þá blöktu appelsínugul flögg hindúa út um allt og annar hver autó bílstjóri sýndi tryggð sína við hindúa með því að flagga í appelsínugulu. Ég hef það frá Hollendingunum í Robertson House að miðbær Bangalore nú um helgina hafi helst líkst hollenskum miðbæ þegar fótboltakeppni stendur yfir, svo ríkjandi var appelsínuguli liturinn.
Á laugardag og sunnudag var vatns- og rafmagnslaust. Þá voru allar verslanir lokaðar og fólk varað við að vera á ferðinni utandyra að óþörfu. Það var því lítið við að vera en sem betur fer hafði ég The Thirteenth Tale mér til halds og trausts, auk vænna birgða af mjólk, vatni og brauði í skápnum.
Á laugardagskvöldið kíkti ég á fréttirnar og fékk þá að vita að ástandið í borginni væri í bókstaflegri merkingu eldfimt: óeirðaseggir höfðu kveikt í strætisvögnum, léttivögnum og leigubílum og lögreglan hafði beitt táragasi og hafið skothríð þar sem einn drengur lést og 22 særðust. Ég komst líka að því að við værum í hringiðju látanna. Eldfimustu svæðin voru Bambooo Bazaar, Ulsoor Lake svæðið, Shivaji Nagar, Indira Nagar og sjálfur Frazer Town (þar sem við búum). Þá höfðu yfirvöld komið á útgöngubanni frá 22 til 7 á sunnudagsmorgun en við höfðu ekki hugmynd um það þegar Baldur fylgdi mér heim þá um kvöldið.
Á sunnudaginn var ástandið svo óstöðugt að Baldur tók ekki annað í mál en að fylgja mér upp í Robertson House og í farteskinu hafði hann hlaupaskó sem hann vildi að ég færi í, svona ef ske kynni. Á meðan við gengum þennan stutta spotta milli heimila okkar vorum við vöruð við af heimamönnum að vera á ferli og við tókum þá á orðinu. Við tókum síðan eftir því að rúður höfðu verið brotnar hjá nágrönnum Baldurs og fréttum af útlendingum sem höfðu orðið að taka til fótanna kvöldið áður til að komast undan æstum Indverjum. Við héldum okkur því innan dyra þann daginn og ég gisti í Robertson House.
Í dag var svo frí í skólum en verslanir hér í Frazer Town opnuðu í morgun og eftir fábrotið fæði helgarinnar gerðum við Baldur stórinnkaup. Rafmagn og vatn er komið í lag og útgöngubanni hefur verið aflétt. Til öryggis held ég mig samt heima í dag, mig langar ekki að lenda aftur í hringiðju mótmælanna eins og á föstudaginn.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli