Í gær var haldið í árlega jólalautarferð Ashanilaya og við skötuhjú flutum með. Ferðin skiptist í fernt: rútuferðin úteftir, pikk-nikk í fuglafriðlandi, heimsókn í hindúa hof og rútuferðin til baka. Með í för voru spariklædd og skælbrosandi börn frá munaðarleysingjahælinu og fátækrahverfum í kring, soðin grjón í stórum stömpum, þrjátíu vatnsmelónur, starfsmenn og tveir útlendir draugar.
Ferðinni var fyrst heitið í fuglafriðlandið
Ranganathittu. Á leiðinni þangað sungu börnin hástöfum og kepptu sín á milli í nýjustu Bollywood dönsunum. Þegar við áðum hentust þau út og héldu rakleitt að sölubásunum til að kaupa gos, snakk og tyggigúmmí. Við Baldur fengum hins vegar kókoshnetuvatn að drekka og
masala dosa að borða.
Þegar við komum á áfangastað stukku börnin á melónurnar og tóku að bera þær niður í skuggsæla laut þar sem við pikk-nikkuðum. Við fórum líka í bátsferð um vatnið og sáu þar fugla og einn stilltan krókódíl. Í hvert sinn sem við munduðum myndavélina kváðu við köll:
Aunty, aunty, take picture! Oncle, oncle me, me!
Eftir fuglaparadísina héldum við að hindúa hofinu Sri Ranganathaswamy. Á meðan við skötuhjú skiptumst á að fara inn í hofið (annað þurfti að passa skó og töskur), hlupu krakkarnir inn í hofið og út aftur og tóku eftir það til við að prútta við sölumennina um póstkort, útskorna muni og leikföng.
Á leiðinni heim sátum við í síðan í forsælunni og nutum þess að finna svalann sem fylgir sólsetrinu. Til að drepa tímann lékum við við krakkana (þeim fannst skemmtilegast að beina rauðum laser geisla á nefið á Baldri) og virtum fyrir okkur sveitir og landsbyggð Indlands. Þannig urðum við til að mynda vitni að upphafi hátíðarinnar
Pongal þar sem beljur eru skreyttar (máluð horn með bjöllum) og fólk safnast í kringum þær, ber trommur og syngur þeim til heiðurs. Mér finnst við ættum að gera eitthvað svipað við okkar beljur, þær eru svo sætar og blíðar að þær eiga það alveg skilið.
Myndir úr ferðinni má finna
hér.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli