miðvikudagur, 21. febrúar 2007

Menningarlöðrungur venst

Við höfum það gott hér í Indlandi. Erum búin að fara í gegnum nokkuð sem ég vil kalla menningarlöðrung frekar en menningarsjokk. Lentum í Mumbai í desember og það var vægast sagt yfirþyrmandi. Fórum svo til Goa og svifum á bleiku túristaskýi í smátíma en svo kom að þeim hluta menningarsjokksins þar sem allt var óþolandi. Þá vorum við komin til Bangalore og höfum stigið hægt og sígandi á þann stað þar sem maður bara er í Indlandi án þess að finnast það frábært eða ömurlegt, semsagt hæf til að njóta reynslunnar.

Fyrst fór í taugarnar á mér að biðraðir væru ekki til, að ég þyrfti að prútta um allt og að ég fengi ómælanlegt magn athygli sölumanna hvar sem ég færi. Nú nýt ég þess að troðast framfyrir annað fólk (engar biðraðir), elska að prútta (stundum niður í 10% af upprunalegu verði) og nýti mér þá athygli sem ég fæ óspart mér til framdráttar. Þetta er semsé allt öðruvísi en kexverksmiðjan, stundum þreytandi en almennt alveg hrikalega gaman.

Í eldhúsinu hjá mér hér í Bangalore býr lítil mús, kakkalakkafjölskylda, nokkrar eðlur (gekkóar), fullt af flugum og a.m.k. tvær tegundir af maurum. Göturnar eru fullar af flökkuhundum og beljum, holræsi og skólp rennur í opnum skurðum og apar reyna reglulega að koma inn til okkar. Þetta er hluti af þeim mun sem er á Indlandi og Íslandi á áþreifanlega sviðinu og alveg ótrúlegt hvað það venst allt saman.

Engin ummæli: