fimmtudagur, 22. febrúar 2007

Afmæli Sharmilu

Sharmila, dóttir Elizabethar samstarfskonu minnar, átti 15 ára afmæli í gær. Indverjar eru að sjálfsögðu öðruvísi en Íslendingar með það að þeir halda upp á 14 ára afmæli hennar, þar sem hún var að fylla 14 ár og byrjar nú á sínu fimmtánda. Ég get ekki sagt að ég hafi skilið þessa hugsun.

Við fórum seinni part dags niður í Masard, hittum þar de danske piger og saman fórum við upp í Ashton Town þar sem Elizabeth býr með syni og dóttur. Þar sem maðurinn hennar stakk af fyrir sjö árum búa þau við ótrúlega þröngan kost, eða í ogguponku herbergi, tíu fermetrar myndi ég segja. Þar deila þau einu rúmi, hafa einn skáp til umráða og tvær gashellur auk búsáhalda. Reyndar eru þar líka tvö sjónvörp en það er í takt við það sem gengur og gerist hér, fátækasta fólkið leggur mesta áherslu á að eignast sjónvarp.

Okkur heiðursgestum var vísað á besta (og eina) setustaðinn: rúmið. Fyrst bar afmæisbarnið fram coca cola í stálglösum en fékk sér ekki sjálf. Því næst fengum við pulla hrísgrjónarétt og sterkan pottrétt. Í honum voru það sem Baldur kallar rauða djöfla og skiptumst við fjögur á að taka hóstaköst og gráta úr okkur augun. Amma gamla sem mætt var á svæðið hafði gaman af að horfa á þetta skrýtna fólk sem ekki gat borðað almennilegan mat á sómasamlegan hátt.

Rétt áður en afmæliskakan var borin fram fylltist litla rýmið af ættingjum. Síðan var stæðilegu kerti stungið í kökuna, það tendrað og allir tóku til við að syngja afmælissönginn. Þegar því var lokið skar afmælisbarnið litlar sneiðar fyrir gestina sem klíndu hvítu kreminu framan í hana þegar þeir veittu sneiðinni viðtöku. Útlendingarnir fjórir horfðu í forundra á og tóku af mestu kurteisi á móti sínum sneiðum. Hvort sem er tími ég ekki að klína mínu kremi framan í aðra.

Nokkrar myndir má finna í Bangalore albúminu okkar, fyrsta byrjar hér.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Halló kæru ferðalangar, mig langaði bara að segja HÆ :o)
Knús og klem, Lísa úr mannfr.

ásdís maría sagði...

Hæ Lísa, gaman að heyra í þér! Við segjum bara HÆ á móti og bestu kveðjur frá Indlandi. Heyrumst fljótlega :0)