laugardagur, 21. janúar 2012

Badstu og spilakvöld

Það er að komast á hefð fyrir þvi að við förum í badstu á föstudagskvöldum ásamt sænsku nágrönnunum okkar Alexander og Petru. Badstu er heit sána, allt að 90°C. Þegar við förum að basta eins og nágrannarnir kalla athöfnina tökum við oft með okkur eitthvað að drekka, eins og áfengislaust öl eða flösku af ísköldu vatni, og sitjum svo inni sveitt og kjöftum af okkur tuskurnar. Þetta er fínasta æfing fyrir okkur í sænsku (reyndar lærum við af krökkunum sértæka Nordland sænsku) en þetta er líka gott fyrir húð og kropp og svo hefur andinn af þessu mikla upplyftingu.

Eftir badstu spiluðum við yatzi með krökkunum. Þetta er annað spilakvöldið okkar og annað sinn sem við spilum yatzi. Við sjáum fram á að halda áfram að spila yatzi og bara yatzi. Vissulega eiga krakkarnir úr öðrum spilum að moða en þau hafa ekki komið til greina fyrir sakir tungumáls- og menningarmunar. Hvernig eigum við t.d. að vita hvað orðið yfir sumabústað er á norður sænskri mállýsku?

Auðvitað bætum við upp fyrir fábreyttni í spilavali með gotteríi og almennri glaðværð. Svo má líka alltaf hugsa sér að taka fram spilastokk, svona sem maður stokkar, og leggja upp í þannig spilamennsku. En þá þyrftum við að viðurkenna að það er ekki endilega tungumála- og menningarmunur sem stendur okkur fyrir þrifum, við kunnum bara ekkert svo vel að spila. Að því sögðu þá komum við öllum á óvart í gær með því að lenda í fyrsta og öðru sæti og þannig taka yngri kynslóðina í nefið eins og tóbak.

Nammi í skál

Yatzi

2 ummæli:

Tinnsi sagði...

Settlers of Catan er gott spil sem krefst ekki flokinna samskipta. Adallega ad geta sagt kind og spytur og nokkur svoleidis ord.

ásdís maría sagði...

Góður punktur, og auk þess finnst mér ógeðslega gaman að spila Settlers þó langt sé um liðið. Einu sinni spiluðum við Baldur Settlers til sjö um morguninn og vorum búin að finna upp eigin reglur til að gera spilið erfiðara :) Good times!