fimmtudagur, 8. ágúst 2002

Flutningar um verslunarmannahelgina

Eins og lesendur vita erum við Baldur núna flutt yfir í Hrauntunguna eftir mikið púl. Flutningarnir sjálfir eru efni í heila sögu sem ekki verður sögð hér nema í grófustu dráttum. Þannig var að daginn sem við fluttum var nóg annað að gera en að bókstaflega flytja. Við þurftum m.a. að fara á Hagstofuna og breyta þar heimilisfangi okkar í þjóðskránni. Stúlkan sem afgreiddi okkur þar sagði að það tæki viku til tíu daga að koma breytingunum inní þjóðskrá sem mér finnst óttarlega slappt. Síðan urðum við að gjöra svo vel oga fara á pósthúsið í Kópavogi og breyta þar póstfangi okkar eins og þeir vilja kalla það þar á bæ.

Glöð í bragði með að vera búin með skriffinnskupart flutninganna héldum við niður í Elko þar sem við ætluðum að festa kaup á hræódýrri ryksugu. Þegar til kastanna kom var hún uppseld og okkur boðin önnur verri og ljótari á sömu kjörum. En við létum ekki sölumenn Elko plata okkur svo auðveldlega, settum upp "þvílík vonbrigði" svipinn og var þá okkur boðin önnur ryksuga, langt um betri en sú sem við upphaflega ætluðum að kaupa. Hún var reyndar dýrari en fyrir vikið líka kraftmeiri, með stillanlegu skafti og innbyggðum fylgihlutum! Þar að auki fékk hún ekki sömu ummæli frá sölumanni Elko og sú ódýrari því þegar við sýndum þeirri ódýru áhuga dró sölumaðurinn mjög úr gæðum hennar og sagði að hún væri góð svona fyrir sumarbústaðinn! Við vorum alveg hæstánægð með nýju ryksuguna og ryksugupokana sem prangað var inn á okkur. Drifum okkur því beint heim í Hrauntungu að prufukeyra gripinn. Hún stóðst próf Baldurs með glæsibrag.

Ég ætla mér ekki að teygja loppann hvað flutningana varðar. Við fluttum, punktur. Því fylgir mikið puð, kassar útí bíl, kassar út úr bíl, húsgögn á faraldsfæti, taugaveiklaðar plöntur og skelkuð gæludýr. Prímadonnan Fríða Sól var flutt seinust úr af Digranesvegi rétt eftir miðnætti aðfaranótt 1. ágúst. Það var gert henni í hag svo hún þyrfti ekki að þola mikið umstang. Hún virtist ekki vera mjög þakklát fyrir þá hugulsemi sem við sýndum henni því á leiðinni út í bíl með búrið gerði hún sér lítið fyrir og beit mig beint í þumalinn. Til blóðs! Kaldhæðni örlaganna er að á þeirri stundu sem bitið var framið vorum við Baldur að tala um að fara að kaupa handa henni stærra og betra búr. Ha, sú getur nú beðið með það!

Nú nú, eins og reyndir menn vita er ekki nóg að flytja á nýjan stað því yfirleitt þarf að skila af sér fyrra híbýli í sæmilegu ástandi ásamt því að koma sér fyrir á nýja staðnum. Fimmtudagurinn fór því í að hreinsa Digranesveginn (íbúðina alt svo) og afhenta hana nýjum leigenda. Það er sorglegt að segja frá því en íbúðin hefur aldrei litið betur út. Hitt er þó meira um vert að eftir að hafa eytt allri helgi verlsunarmanna í að taka upp úr kössum, ryksuga, bora, skrúfa og negla var nýja íbúðin glæsileg og Digranesvegurinn hefði aldrei átt sjens í hana :) Þar að auki fengum við lánaðan ofninn sem Ólöf og Jói eiga og það er aldeilis góð búbót. Takk kærlega fyrir það.