fimmtudagur, 29. ágúst 2002

HÆ HÓ!!! (2. bindi)

Ég sá að Baldur hafði bætt við smá færslu eftir ansi langt hlé frá bloggskrifum og mér fannst ég ómögulega geta verið verri maður. Ég var á leiðinni út úr þessu tölvuveri hér í VR II þegar ég hlammaði mér aftur niður og sagði bara: Nei, hættu nú alveg! En eins og Baldur sagði svo réttilega frá þá hefur allt verið á fullu hérna hjá okkur báðum, fyrst flutningar, svo hreiðurgerð (koma sér fyrir í nýja bælinu) og síðan drifum við okkur í átta daga hringferð um klakann sem var alveg svakalegt stuð. Meira af því seinna og kannski myndir líka!

En svo ég haldi áfram með smjörið þá er mannfræðin ekki enn hafin og ég fer ekki í minn fyrsta tíma fyrr en á miðvikudaginn næsta. Hins vegar hef ég nóg að gera þangað til því ég var að fá nýja vinnu! Já, þannig er mál með vexti að ég ætlaði að hafa það bara náðugt í vetur, læra smá, synda smá, slappa af og lifa á námslánum. En síðan var hringt í Unni Dís, vinnuveitenda minn þetta sumarið og áfram í vetur (kem síðar að því) og hún spurð hvort hún vissi af einhverri duglegri stelpu sem væri til í að vinna með skólanum í vetur. Skilyrðin voru eftirfarandi: stelpa, mjög dugleg, fljót að pikka á lyklaborð, gott vald á íslenskri tungu, sem sagt góð málvitund og gott málfar, snyrtileg og prúð o.s.frv. Unnur Dís á víst að hafa gefið mér svo góð meðmæli, að mér algjörlega óaðvitandi (enda einhversstaðar út á landi í ferð með snúffanum mínum) að það var hringt í mig um leið og ég mætti aftur til vinnu og ég spurð hvort ekki væri möguleiki að fá mig í viðtal. Jú, jú sagði ég og dreif mig niður til IMG Gallup en þeir voru að falast eftir vinnuafli mínu. Þar var ég ráðin á staðnum og eiginlega áður en ég gat ákveðið hvort ég vildi demba mér út í þetta eða ekki. En ég gat ómögulega neitað enda ágætiskaup í boði. Staðan er því svona, ég er orðin ritari hjá IMG Gallup. En áður en þið súpið hveljur þá vil ég bara koma því að að þetta er ekkert hefðbundið ritarastarf, heldur er ég að taka þátt í rýnihóparannsókn á vegum IMG þar sem ég sit á bak við spegil sem ekki sést í gegnum (spennó) og hinu megin við glerið sitja einstaklingar á fundi og það kemur í minn hlut að reyna að ná öllu því sem þeir segja niður á blað. Þetta er reyndar allt tekið upp á kasettu sem ég hlusta síðan á síðar til að fylla í eyðurnar.

Ég er strax byrjuð á fullu hjá þeim því ég var beðin um að taka að mér að vélrita átta djúpviðtöl. Allir sem einhvern tímann hafa reynt að skrifa orðrétt það sem einhver manneskja á kasettu segir veit að það er ótrúlega mikil vinna. Það er alveg magnað hvað fólk getur hikað mikið í samtölum og byrjar margoft á setningu og hættir síðan í miðju kafi. Síðan hef ég tekið eftir því að Íslendingar nota orðið náttúrulega alveg óspart. En þetta er ansi gaman, sérstaklega þegar viðmælendur eru skýrmæltir. Þetta er þar að auki ágætisæfing fyrir komandi misseri þar sem ég mun sitja námskeiðið Eigindlegar aðferðir sem felur einmitt í sér að taka djúpviðtöl og vélrita þau á blað, orð frá orði.

Ég sé því fram á erilsaman vetur og líst bara vel á. Þetta er lokaárið mitt í BA námi og því verð ég á fullu að vinna í BA ritgerðinni. Síðan verð ég líka að vinna áfram hjá Unni Dís því við fengum styrk til þess hjá aðstoðarmannasjóði. Það er reyndar ekki eins viðamikið og IMG vinnan, frekar eitthvað svona sem ég get dúllað mér í milli tíma. Ég þakka bara Guði fyrir að hafa verið forsjál á sínum tíma og tekið 21 einingu vorönn 2001 og 17 á síðustu önn. Það þýðir að ég á aðeins 22 einingar eftir í stað 30 og þess vegna get ég leyft mér þann munað að vinna með námi og fá tekjur!

Kannski ég sættist við Fríðu Sól og kaupi handa henni stærra búr eftir allt saman. Svo lengir sem hún bítur mig ekki aftur.