Á kajak til Vientiane eru kannski svolitlar ýkjur en það hljómaði betur en: Á vörubílspalli í einn og hálfan tíma, þrír tímar á kajak og einn og hálfur tími í viðbót á vörubílspalli. Æi, ég veit það ekki. Ætti ég kannski að skipta fyrirsögninni út fyrir þetta rugl? Allir samtaka nú: NE-HEI!
Okkur var semsé skutlað, með öllu hafurtaski, af hótelinu og niður að mikilli á. Við vorum í góðum félagsskap tveggja annarra para, Fernando og Sofiu frá Kólumbíu og Svíþjóð en hitt parið frá Katalóníu (auðvitað Barcelona).
Niðri við ána var haldið námskeið um öryggi og hvernig skyldi bera sig að við kajakaróður niður flúðir og hvað skyldi gera þegar bátnum hvolfdi. Ég verð nú að játa að maður hafði ekkert sérstaklega þungar áhyggjur af þessu öllu en setti þó upp öll þau öryggi sem ætlast var til; hjálm og björgunarvesti ásamt sérstökum þurrpoka fyrir verðmæti.
Ekki höfðum við róið lengi þegar mikill gusugangur blasti við, fyrstu flúðirnar, og straumurinn gerðist allharður. Við ákváðum að fara síðust í halarófuna og sjá hvernig hinum vegnaði og fór meirihluti þátttakenda á bólakaf, árar og kajakar úti um allt, og voru vinir okkar frá Kólumbíu og Svíþjóð í miklu aðalhlutverki þar. Við héldum hins vegar góðum sönsum og komumst svotil skraufþurr í gegn.
Við næstu flúðir vorum við því aðeins öruggari og ákváðum að fara aðeins framar í röðina. Ein mistök gerðum við þó því á síðustu stundu kallaði leiðsögumaðurinn á okkur og sagði okkur að fara niður miðjar flúðirnar, ekki til hliðar eins og við ætluðum. Auðvitað hlýddum við kennaranum, hrekklaus börnin, og vitanlega fór kajakinn á hvolf og við á bólakaf.
Eins og glöggir lesendur taka eftir þá lifðum við þetta af og reyndist baðið bara hressandi þrátt fyrir að sumum okkar hafi ekki litist á blikuna. Við lærðum líka af þessu að hlusta ekki á svona hrekkjótta leiðsögumenn framar og varð úr að við héldumst í bátnum það sem eftir var ferðar ef frá er talið eitt stopp til að grilla hádegismat og borða hrísgrjón.
Eftir kajakróður dagsins beið okkar túk-túk með farangurinn okkar og alla leiðina til Vientiane kjöftuðum við frá okkur vit og rænu við áðurnefnd vinapör og lærðum margt áhugavert, t.d. að í Kólumbíu borðar fólk kókakólahrísgrjón og að í Katalóníu er stytta af karli sem situr á hækjum sér og hægir sér notuð sem jólaskraut!
Að lokum lærðum við að spænskumælandi segja ekki guð hjálpi þér og að þegar maður á annað borð er byrjaður að hnerra er allt eins gott að gera það þrisvar. Á fyrsta hnerra segir fólk salud (heilsa) og á öðrum er það dinero(peningar). Þriðji hnerrinn kemur svo öllu í jafnvægi og gefur heilsu og peningum aukið vægi, amor (ást)!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli