Í gær...
- var fysta kvöldið okkar í höfðuborg Laos, Vientiane. Það var mjög skemmtilegt kvöld.
- fórum við á ítalskan veitingastað með spænska parinu Ferran & Mireia og Fernando & Sofiu. Þegar Baldur spurði þjónustustúlkuna út í hvaða grænmeti væri á pizzunni, sem hann hafði augastað á, fékk hann að vita að það væri white, clean and mushrooms. Þetta er auðvitað klassískt svar úr veitingabransanum, ekki satt, við vorum samt svo vitlaus að reka upp stór augu.
- hlustuðum við á margt góðra sagna. Við hlustuðum á sögur um fólk sem lætur illa í svefni, hlógum að hetjusögum úr kajakferðinni og grenjuðum af hlátri yfir því hvernig Fernando & Sofia sigldu upp á sker og tóku þaðan flugið yfir ánna með svakalegri lendingu sem kom kajaknum á hvolf og þeim ofan í vatnið með björgunarvestin fráhneppt og hjálmana lausa (varhugavert gáleysi hjá Kólumbíumanninum). Fyrir tilstuðlan varnarorða Sofiu - Haltu í árina! - tókst að bjarga blessaðri árinni, en Fernando flaut með straumnum og hékk á skeri, með árina í annarri.
- fræddumst við um tungumálaörðugleika. Spánverjarnir þurftu t.d. að glíma við það að spænska sögnin coger (að taka/grípa) hefur kynferðislega merkingu í Argentínu og því er ekki vel séð að rétta argentíska landamæraverðinum vegabréfið sitt til með boðhætti sagnarinnar coger.
- fengum við að heyra af afrekum Fernando í Indónesíu. Hann vildi nota frasa úr Lonely Planet og lagði sig fram um að læra að segja góðan daginn á bahasa indónesísku. Honum til mikillar undrunar forðuðu viðmælendur hans, sem í öll skiptin voru unglingsstúlkur, sér á brott; litu fyrst á hann undrandi með uppglennt augun og tóku svo á rás. Þegar hann, ráðvilltur og ringlaður, tjáði einum heimamanni frá erfðileikum sínum við að bjóða góðan daginn fékk hann loks skýringu. Í stað þess að bjóða ungu dömunum góðan daginn var hann að spyrja þær í léttum og brosandi tón hvort þær væru giftar!
- enduðum við kvöldið á göngutúr um bakka Mekong þar sem allt var fullt af fólki, sölubásum og smábörnum að selja uppblásnar blöðrur. Í sölubásunum var verið að kynna sápur og bleyjur, sojamjólk og gos, og hjá götusölunum var hægt að fá heil egg á grilli, með skurninni og öllu.
- prufuðum við hið sér sérlaóíska pílukast, þrjár pílur og fullur rekki af marglitum blöðrum, ef maður sprengir þrjár fær maður verðlaun. Allt þetta fyrir 1000 kip, eða 7 krónur. Ég fékk pepsí í gleri í verðlaun enda hitti ég allar þrjár blöðrurnar.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli