föstudagur, 19. október 2007

Krukkuslétta

Við heimsóttum eitt hættulegasta fornminjasvæði heims í dag, nánar tiltekið Krukkusléttu sem er í Xieng Khouang sýslu í Norður Laos. Það eru ósprungnar sprengjur (UXOs), sem varpað var á sléttuna af Bandaríkjamönnum í hinu svokallaða Leynda stríði á 7. áratugnum, sem gera Krukkusléttu að einu hættulegasta fornminjasvæði heims. Maður ber að vara sig á því hvar maður stígur fæti og hyggilegast er að ganga innan hvítu steinanna sem marka örugg göngusvæði. Af þeim 400 svæðum sem krukkurnar hafa fundist á eru aðeins þrjú þeirra opin almenningi þar sem önnur svæði eru teppalögð ósprungnum sprengjum.

Krukkuslétta ber nafn með rentu, þar er að finna þúsundir krukkna, misstórar og þungar en þó flestar mannhæðarháar. Fræðimenn áætla að þær séu um tvö þúsund ára gamlar. Gamlar sögusagnir meðal heimamanna segja að krukkurnar hafi verið búnar til af kynþætti sem var mun hávaxnari og kraftmeiri en fólkið sem í dag byggir Xieng Khouang svæðið. Konungur þessa risamannkyns, Khun Cheung, á að hafa staðið að baki krukkugerðinni og notað þær til að brugga Lao hrísgrjónavín.

Fornleifafræðingar og mannfræðingar hallast þó á að krukkurnar hafi verið notaðar undir greftrun og renna mannabein, sem fundist hafa í krukkunum, stoðum undir þá kenningu. Leiðsögumaðurinn okkar bar hins vegar á borð fyrir okkur gömlu sögusagnir heimamanna af mikilli ákveðni og fullyrti að í fyrndinni hefði fólk verið hávaxnara, sterkara og sköllótt í þokkabótt! Það þótti mannfræðingnum í hópnum mjög fyndið og þegar hann fór að tala um að krukkurnar hefðu verið hitaðar yfir eldi til að herða steininn, fór finnski jarðfræðingurinn í hópnum að flissa. Það var í stuttu máli sagt gagnlegra að skoða krukkurnar á eigin spýtur en að hlusta á leiðsögumanninn okkar, nema til að heyra gróusögur og þannig kynna sér aðra hlið á Lao menningunni.

En hver svo sem ástæðan fyrir krukkunum er get ég fullyrt að þær eru stórfenglegar, og slétturnar sem þær er að finna á eru dásamlega friðsælar og fallegar. Slétturnar eru í þúsund metra hæð og loftið því svalara en víða annars staðar í Laos. Allt um kring eru síðan sléttir akrar og skógivaxnar hæðir og blár, blár himinn.

Við áttum yndislegan dag á Krukkusléttu og ekki spillti samferðafólk okkar fyrir, finnskt par sem spjallaði heilmikið við okkur um Múmínálfana og kenndi okkur að segja kisa og hundur upp á finnsku: kisa og gojra!

Engin ummæli: