þriðjudagur, 7. maí 2002

Farinn vegur

Þá erum við loksins komin aftur, hin fræknu Balli Bumba og Dísa Djásn. Við tókum okkur nebblega nokkkurra daga frí ef þið tókuð ekki eftir því. Fríið fólst meðal annars í því að forðast hluti eins og heimilistölvuna enda var maður kominn með nóg af tölvuglápi. En þrátt fyrir að við tókum okkur frí var margt að gerast. Við ætlum því að reifa helstu atburði hér.

Laugardagurinn 27. apríl
Þennan dag tók ég seinasta prófið mitt og gekk bara alveg ágætlega. Eftir að ég hafði talið í mig dug til að ljúka prófinu og skila því af mér hentist ég út í vorið og þar, í vorinu, beið Baldur mín með smá próflokagjöf. Gjöfin var hvorki meira né minna en Heimsbyggðin, saga mannsins frá upphafi til dagsins í dag eins og stendur réttilega á kápunni. Þetta finnst mér alveg frábær gjöf því ég hef einmitt verið að kvarta undan því hve lítinn grunn ég hef í mannkynssögunni. Nú dugir ekki að kvarta meira, hér dugir aðeins lesturinn.

Til að halda enn fremur uppá þessi merku tímamót héldum við útí Bónus þar sem við keyptum nesti. Síðan héldum við út í óvissuna með kókómjólk og kex í farteskinu. Fyrst áðum við í Verahvergi þar sem við böðuðum okkur í sundlaug heimamanna. Þaðan var síðan haldið beint yfir í Eden því við Baldur kaupum okkur oftast franskar þar þegar við eigum leið um dalinn. Ekki það að franskarnar séu eitthvað afspyrnu góðar þar á bæ, heldur snýst þetta um prinsíp, maður verður að hafa ákveðna siði og sérvisku. Við ákváðum að sukka allverulega og keypum því líka Fanta. Úff, ekki má gleyma lottóinu sem við keyptum fyrir fúlgufjár. Þrátt fyrir að Baldur hafi beðið um vinningsmiða var þar engan vinning að fá. Svekkelsið.

Sunnudagurinn 28. apríl
Við vöknuðum tiltölulega snemma enda þurfti Baldur að syngja í messu. Ég hófst hins vegar handa við að baka fyrir afmæliskaffiboðið seinna um daginn. Mér tókst að baka djöflatertu, kanilköku og muffur áður en gestina bar að garði en varð að hnoða deigið í brauðbollur og steikja pönnsur í þeirra viðurvist. Kaffiboðið heppnaðist stórvel og þrátt fyrir að þröngt hafi verið á þingi rúmaði stofan okkur öll vel. Kisa greyið flúði inní herbergið sitt enda óvön slíkri mannmergð.

Mánudagurinn 29. apríl
Þessi dagur verður lengi í minnum hafður sem dagurinn þegar flétta tvö bættist í safnið. Svo er mál með vexti að strax í æsku var ég með sítt hár. Á tíunda aldursári var mér nóg boðið og dreif mig í langþráða klippingu. Hárið var fléttað og síðan klippt beint af hausnum mínum. Sú flétta er núna í fórum pabba. Þenna mánudag virðist ég hafa upplifað sömu örvæntinguna og ég upplifið 12 árum áður því ég dreif mig á næstu klippistofu og lét klippa af mér haddinn. Þar endurtók sagan sig, hárið var fléttað og síðan bara klippt af. Eftir á leið mér eins og ég hefði gorkúlu í stað höfuðs, mjög sérkennileg tilfinning. Það sem er ólíkt með þessum tveimur klippingum er þó að núna er ég ólíkt stuttklipptari og í fyrstu fannst mér ég óttarlega strákaleg. Baldur varð hins vegar yfir sig hrifinn og sagði að svona ætti ég alltaf að vera. Ég neita því ekki að svona stutt hár er ósköp þægilegt að hafa, engin fyrirhöfn what so ever.

Létt á fæti fór ég á bókasafnið og tók allar bækurnar um stúlkuna á bláa hjólinu. Ástæðan fyrir því er þessi: Ég var svo vitlaus að kaupa bókina Heitt streymir blóð á bókaútsölu á dögunum. Þegar ég kom heim og ætlaði að hefja lesturinn komst ég að því mér til hrellingar að bókin er sjötta bindi bókaflokksins um stúlkuna á bláa hjólinu. Ég hafði óljósa minningu af fyrstu bókinni þar sem ég hafði séð hana á náttborð mömmu þegar ég var písl. Mér fannst hún alltaf óttarlega óspennandi og eflaust hef ég svarið að lesa þetta aldrei sjálf þegar ég yrði fullorðin, enda eitt markmiða krakka að verða alls ekki svona leiðinlegur fullorðinn sem horfir á fréttir og talar um pólitík, oj. Það hef ég víst allt svikið. Bækurnar reyndust hins vegar áhugaverðar fyrir það eitt að fjalla um frönsku andpyrnuhreyfinguna í seinni heimsstyrjöldinni.

Um kvöldið heimsóttum við síðan mammsý sem einnig varð hrifin af nýja lookinu. Ég reyndi að plata og segjast vera með hárkollu, án árangurs þó.

Þriðjudagurinn 30. apríl
Það er eins og mig minnir að ég hafi legið yfir lestri góðra bóka allan þenna dag. Um kvöldið elduðum við Balli pottrétt úr linsubaunum og buðum mömmu í mat því við ætluðum í bíó klukkan átta. Eftir mat lá leið Balla á kóræfingu en við mamma nýttum okkur þriðjudagstilboð bíóhúsanna og fórum að sjá You Can Count On Me. Æ, ég veit ekki, ég mæli ekki með henni satt best að segja. Sumar myndir vinna á, maður er efins eftir að maður kemur úr bíó en því meir sem maður pælir því hrifnari verður maður. Þessi mynd tók öfuga stefnu í huga mér, því meir sem ég pæli því lélegir finnst mér hún. Aldrei að ljúka mynd með of mörgum opnum endum, áhorfendur eins og ég gúddera það ekki.

Miðvikudagurinn 1. maí
Við byrjuðum daginn á því að fara í Árbæjarlaug sem virtist vera eina opna laugina á stórhöfðuborgarsvæðinu. Kópavogslaug var auðvitað ekki opin, en slíkt þarf ekki að taka fram. Laugin var krökk af fólki, aðallega smáfólki og halda mátti að um krakkanýlendu væri að ræða. Okkur tókst ekki að slappa eins vel af og við bjuggumst við enda voru litlir gríslingar út um allt að henda sér í pottana úr öllum áttum og ekki möguleiki að vita hvaðan þeir kæmu eða hvenær. Eftir vægt taugaáfall hentumst við uppúr og inní bíl og ákváðum að fara í bíltúr. Stefnan var fyrst tekin á næstu ísbúð og þaðan ætluðum við síðan uppá Þingvelli. Á miðri leið rak ég þó augun í skilti sem vísaði leiðina upp að Hlaðgerðarkoti, gamla heimavistaskólanum hennar mömmu. Ég varð auðvitað óð og uppvæg og vildi sjá þessa byggingu sem ég hafði svo oft heyrt talað um. Okkur varð þó ekki kápan úr því klæðinu, eitthvað villtumst við og vorum því fegnust þegar við sjáum malbikið á nýjan leik. Í stað þess að halda við fyrra plan beygðum við til vinstri og héldum í átt til borgarinnar. Við keyrðum um nýja Grafarholtshverfið og það kom okkur á óvart hve mikið hefur verið byggt nú þegar.

Fimmtudagurinn 2. maí
Í tilefni af 22 ára brúðkaupsafmæli Ólafar og Jóa var okkur ásamt Froskunum boðið í mat, saltfisk með kartöflum og ólívum. Ég plokkaði ólívurnar burt og gaf Stellu þær. Allt annað borðaði ég með bestu lyst enda einn besti fiskréttur sem ég hef fengið. Við horfðum líka á einn Matador þátt sem mér þótti ósköp ómerkilegur og leiðinlegur en reyndi eftir fremsta megni að halda athyglinni með það fyrir augum að læra smá dönsku áður en við flytjum út.

Föstudagurinn 3. maí
Sem liður í að borða meira af baunum gerðum við heiðarlega tilraun til að búa til linsubaunabollur. Þær voru ekki góðar. Ég hef hins vegar smakkað einhverjar bollur úr baunum sem voru virkilega góðar og nú er bara að leggja höfuðið í bleyti og detta eitthvað sniðugt í hug.

Um kvöldið fórum við yfir á Þingás. Pabbi var á árshátíð og Andri hjá Gyðu þannig að við höfðum allt húsið fyrir okkur sjálf. Mest um vert þótti okkur þó að hafa vídeótækið og sjónvarpið fyrir okkur sjálf því við ætluðum að glápa á Manhattan Murder Mysteri eins og við hétum um daginn. Myndin er alveg frábær og ég lá ekki síður í krampa núna en ég gerði fyrst er ég sá hana.

Laugardagurinn 4. maí
Baldur söng á tónleikum með Stjörnukórnum hennar Tótu, þetta voru svona maraþon tónleikar þar sem sungið var frá morgni fram á kvöld. Um kvöldið var síðan hin hefðbundna föstudagspizza nema hvað hún var einum degi of seint á ferð.

Sunnudagurinn 5. maí
Rok og rigning lýsir þessum degi ansi vel. Við hættum okkur þó í Laugardagslaug og héldum okkur í bubblpottinum allan tímann. Eftir það höfðum við stuttan stans við pollinn í Reykjavík þar sem allir fuglarnir þinga og hentum í þeim nokkrum brauðsneiðum. Eftir slíkt góðverk fannst okkur við eiga skilið að fara að sjá Woody Allen myndina sem núna á að fara að sýna í bíó, The Curse of the Jade Scorpion. Við vorum bæði mjög hrifin og hlógum dálaglega.

Mánudagurinn 6. maí
Við tókum okkur göngutúr í gær um Kópavoginn. Við gengum meðfram stöndinni og kíktum í heimsókn til Ólafar og Jóa. Síðan skokkuðum við létt á tá heim á leið enda með sojadesert í mallanum, namm. Heima beið okkar síðan verðugt verkefni, að horfa á Casablanca. Ég hafði aldrei séð myndina og fannst því tími til kominn að sjá um hvað allt þetta fuzz snérist. Myndin var ágæt en ég var samt ekkert of hrifin. Skemmtilegast var þegar maður heyrði línur sem maður hafði heyrt í hinum og þessum þáttum. Ég held ég hafi samt hlegið mest af þýsku hjónunum sem voru að æfa sig í ensku: What watch? Ten watch. Such much?