Við kíktum í dýragarðinn í dag, í annað sinn síðan við fluttum út. Að hluta til var það af því að þegar við komum heim frá Ítalíu beið okkar nýr Zoo bæklingur sem við fáum senda reglulega frá þeim sem árskortshafar. Þar var m.a. verið að tilkynna gestum garðsins að nýr ísbjörn væri fluttur inn. Við vorum mjög spennt að kíkja á nýja "fjölskyldumeðliminn."
Að hluta til var heimsóknin líka tilkomin af því að Stella og Kristján ætluðu í garðinn með sína gesti og hvöttu okkur að koma líka. Svo úr varð að við nýttum þennan fallega dag í dýrastúss. Í þetta sinn ákváðum við að byrja á þeim hluta garðsins sem liggur sunnan við Roskildevej og svo skemmtilega vildi til að þar voru froskar og co einmitt á rölti.
Við sáum tvo nashyrninga en samkvæmt Zoo guide-inum okkar slást nashyrninga og flóðhestar um titilinn "næststærsta dýr veraldar". Mér létti að heyra það því þetta eru svo stór dýr, ég er fegin að það eru ekki margar dýrategundir í viðbót sem eru svona stórar. Við sáum líka verk veiðiþjófa sem fella nashyrninga einvörðungu til að nálgast hornin. Myndin sem við sáum sýndi nashyrning á hliðinni, hornin og eyrun horfin svo skein í bleikt hold og gráleitan heila.
Næstu dýr til að vekja athygli okkar voru Galapagosskjaldbökurnar. Þessar skjaldbökur eru þær stærstu af landskjaldbökunum og til að viðhalda sér borða þær mikið, meira að segja kaktusa! Af öðrum dýrum garðsins náðum við líka að heimsækja gíraffana, kengúrurnar og lamadýrin (þau spýttu sem betur fer ekki á okkur).
Þegar kominn var tími til að kíkja við hjá nýja ísbirninum og sjá tígrisdýraungana varð myndavélin alveg batteríslaus. Við héldum að sjálfsögðu för okkar áfram og sáum doppótta grísi, hvíta kanínuunga og sitjandi trjábjörn en þar sem við höfum ákveðið að kíkja aftur í dýragarðinn nú í vikunni og ná myndum læt ég hér staðar numið og segi: framhald á næstu dögum.
P.s. Á leiðinni heim komst Baldur í aðeins of náin kynni við skepnur jarðarinnar þegar hann sparkaði í það sem hann taldi vera poka á jörðinni en reyndist svo vera dauð dúfa.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli