Ó hvað það var gaman á þessum tónleikum! Ó hve allir dilluðu sér við tónlistina og brostu út í eitt. Tónlistin þeirra er eins og ópal: hressir, bætir, kætir.
Við mættum nægilega tímanlega til að næla okkur í sæti. Sætin sem um ræðir voru rauður sófi meðfram veggnum með ofurmjúkum pullum. Hægt og rólega fylltist dansgólfið og þegar hljómsveitin sté á svið þustu allir nær. Við vorum hins vegar örugg með útsýnið úr okkar sætum og fórum því hvergi.
Amadou og Mariam eru bæði blind og því voru hljóðfæraleikararnir þeim ávallt innan handar með að finna míkrafóninn og fleira í þeim dúr. Ef ekki hefði verið fyrir það - og hin augljósu sólgleraugu sem þau bæði báru í rökkvuðum húsakynnum Vega - hefði verið erfitt að átta sig á því að þau eru blind.
Þau spiluðu mikið af nýjustu plötunni sinni en við fengum líka að heyra af öðrum plötum þeirra og fannst okkur það ekki síðra. Ég hafði mjög gaman af því að fylgjast með sveitinni í sviði en sér í lagi hafði ég gaman af bongótrommuleikaranum. Hann virtist vera eilítið fýldur við upphaf tónleikana en undir lokin var hann eitt stórt bros. Kætin virtist færast yfir hann í takt við bongótrommusólóin: því fleiri sóló því stærra bros.
Þegar tónleikarnir voru búnir hjóluðum við okkar leið að miðbænum. Við vildum nefnilega vera þjóðlega og fá okkur danskt smørrebrød í miðnætursnarl. Það skondna var að í stað þjóðlegs varð upplifunin frekar alþjóðleg. Smørrebrødsdömurnar voru nefnilega af asísku bergi brotnar og eini viðskiptavinurinn fyrir utan okkur var Asíubúi.
Myndirnar hér að neðan eru úr rauðu seríunni, harhar.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli