föstudagur, 10. mars 2006

Að ordna hlutunum

Tónlistarskrárnar okkar fóru í algjöra köku um daginn þegar við vorum að prufa okkur áfram með iTunes. Þar sem við vorum ansi ánægð með fyrra fyrirkomulag leist okkur ekkert alltof vel á hvernig iTunes hafði tekið tónlistina okkar í bakaríið. Allar skrár af safnplötum og úr möppum með blönduðum lögum eins og jóla- og eurovisionmöppunni voru nú tvístraðar um allt svo ekki var lengur hægt að ganga í gömlu möppurnar og spila sín lög því þær voru galtómar.

Það voru ekki bara safnplöturnar okkar sem urður fyrir barðinu á iTunes heldur urðu möppur þeirra David Bowie, Frank Zappa, Madonnu, Neil Young, Nike Cave og Tim Buckley einnig illa úti. Útkoman var sú að yfir 600 tónlistarskrám hafði verið hent inn í hina óræðu og afspyrnu móðgandi möppu "Unknow Artists" og nú var það okkar að finna þeim sinn rétta samastað. Við urðum frekar pirruð, svo ekki sé meira sagt.

Það kom þó ýmislegt óvænt út úr þessu. Þegar við lögðum í þá miklu vinnu að endurraða öllum þvældu lögunum urðum við að sjálfsögðu að hlusta á mörg þeirra til að vita hvaða skrá við höfðum í höndunum. Ég veit að það var fátt sem kom Baldri á óvart enda allt tónlist sem hann hefur margoft hlustað á. Ég aftur á móti þekki minna til þessara tónlistarmanna og skemmti mér því stórvel við að ramba á skondna lagatitla eins og John, I'm Only Dancing, The Jean Genie, Waka-Jawaka, Cucamonga og What's The Ugliest Part Of You.

Það sem er þó merkilegast (og sem ekki hefði komið til hefðum við ekki neyðst til að taka til í tónlistarmöppunni okkar) er að ég uppgötvaði að ég þekkti til mun fleiri laga David Bowie en mig grunaði. Síðan þá hef ég af sjálfsdáðum verið að setja Bowie á fóninn. Það er met.

Engin ummæli: