mánudagur, 26. mars 2007

Áhrif yoga

Við sóttum okkar fyrsta astanga yoga tíma í dag og heilluðumst alveg af æfingakerfi þeirra. Gúrúinn Ingibjörg var búin að hvetja okkur alla vikuna á undan að mæta í einn tíma en á sama tíma var Víðir að hræða okkur með sögum um hve erfiðir tímarnir væru.

Í þessum fyrsta tíma lærðum við sex fyrstu stöðurnar í fyrstu seríunni: sólarhyllingu A og B og fjórar aðrar sem ég kann ekki að nefna að svo stöddu. Undir lok tímans lét kennarinn, Móníka, okkur fara í lótusinn. Mér hefur alltaf tekist að komast í lótusinn en átt í miklum vandræðum með að halda honum. Í þetta sinn náði ég hins vegar að yfisstíga þennan andartaks sársauka sem fylgir stöðunni og hefði getað setið allan dag í lótusnum. Það var mögnuð upplifun.

Áhrif yoga tímans létu ekki á sér standa. Ég varð miklu skarpari og fannst sem tíminn hefði kippt mér inn á beinu brautina aftur. Ég hef verið slök í vatnsdrykkjunni undanfarna daga og fundið til kraftleysis fyrir vikið. Eftir tímann fór ég hins vegar í langa og góða sturtu þar sem ég lét vatnið heila mig, drakk síðan grænt te á veröndinni og súpti á vatnsglasinu reglulega.

Dagsfastan varð líka auðveldari og skemmtilegri eftir yoga tímann. Við rufum hana síðan með einu besta papaya sem sögur fara af og tveimur gómsætum bönunum. Við prófuðum líka ávöxtinn chickoo sem er algjört sælgæti. Hann er dísætur og hvað bragð og áferð snertir minnir hann einna helst á marsípan.

Engin ummæli: