föstudagur, 27. júlí 2007

Aðgerðin

Ég neyddist til að fara aftur til læknis í dag þar sem sýkingin í ilinni hefur ekkert hjaðnað. Að þessu sinni fengum við ótrúlega faglega þjónustu í ótrúlega lítilli en ofurhreinni læknastofu sem er inn af hótelinu okkar. Læknirinn ákvað að gera þyrfti aðgerð á ilinni og ég mátti velja á milli þess að hún yrði gerð á staðnum fyrir tvö þúsund baht eða fara á einkarekinn spítala og fá aðgerð upp á 20 þúsund baht. Það er augljóst að sumar ákvarðanir eru ekki erfiðar.

Baldur fékk að fylgjast með aðgerðinni og hef ég því frá honum hvernig allt fór fram. Fyrst sótthreinsuðu læknirinn og hjúkurnarkonan allt sem hægt var, því næst fékk ég deifingu í ilina og get frætt ykkur um það að það að láta stinga sig með nál í sýkt svæði á ilinni er eitt það allra versta sem ég hef þurft að þola. Næst skar læknirinn 1 cm skurð í ilina og hreinaði burt gröftinn, skolaði síðan sárið með joðblöndu, tróðu því næst sótthreinsaðri grisju ofan í sárið og bundu um fótinn. Deifingin virkaði vel en mér fannst samt afskaplega ónotalegt að vita til þess að verið væri að búa til holu ofan í fótinn og troða einhverju ofan í hana.

Læknirinn skrifaði að sjálfsögðu upp á sýklalyf og verkjalyf og að þessu sinni tek ég tvær gerðir að sýklalyfjum til að breiddin sé meiri og líkurnar á að kveða sýkinguna í kútinn aukast. Baldur varð að bera mig á bakinu upp í herbergi og þola urrið í mér þegar deyfingin fór að hjaðna. Til að gera mér lífið bærilegra keypti hann bókina The Shadow of the Wind og þar sem ég þarf að borða eitthvað með þessum sýklalyfjum fékk ég M&Ms og Snickers. Hann sér semsé mjög vel um mig. Ég verð þó að segja að það er alveg merkilegt hvað það er leiðinlegt að borða nammi þegar maður þarf þess.

Engin ummæli: