Nokkuð er nú liðið síðan ég fór í rakstur síðast og auðvitað hef ég ekki nennt að standa í að raka mig sjálfur svo það má segja að tími hafi verið til kominn að heimsækja rakarann góða. Með mér á rakarastofuna kom Elfar sem við höfðum nokkrum dögum áður sent fyrirmæli um að raka sig alls ekki fyrir heimsókn sína til Bangkok.
Raksturinn var ljúfur að vanda og ekki spillir að innifalið er alltaf smá axlanudd í lokin. Nýrakaðir tókum við svo púlsinn á eftirmiðdagstómstundum Bangkokbúa, svona á heimleiðinni. Á þeirri göngu sá maður ýmislegt t.d. afar líflegt sparkblak, kjúttaða kettlinga, krakka að dorga og suma sem komu einfaldlega til að slappa af.
Þegar maður lifir lúxuslífi í Bangkok koma reglulega upp erfiðar spurningar um hvaða nuddstofu eigi að fara á eða hvar skuli borðað. Ágætlega hefur gengið að leysa úr þessum flækjum og í dag var matarmálið leyst með heilsteiktum og ákaflega ljúffengum vatnafiski (red snapper).
Eftir matinn bauð Elfar okkur svo í hjólatúr með herra Tælandi enda eina leiðin til að fá einfætluna Ásdísi út á lífið. Við höfðum séð gaurinn hjóla um á vægast sagt áberandi léttivagni sínum og þegar Tælendingar skreyta þá er það sko ekki lítið, þess vegna köllum við vagninn aldrei annað en pimpmóbíl. Glitur og litadýrð virðist allmörgum í blóð borin hér um slóðir og fer síðan annað slagið úr böndunum á svona líka skemmtilegan hátt.
Með hinum flúraða fýr fórum við svo frá veitingastaðnum okkar niður á Khao San og tékkuðum á stemningunni. Það má samt eiginlega segja að tékkað hafi verið á okkur því ósjaldan stökk fólk fram fyrir vagninn eða hljóp að hlið hans til að smella af okkur myndum (en ekki hvað, við erum þrír fallegir Íslendingar).
Engin ummæli:
Skrifa ummæli