Á morgun kveðjum við Darjeeling. Bærinn kúrir sig í fjallshlíð litla 2134 metra ofan við sjávarmál og ætli maður nokkurn skapaðan hlut annan verður maður að hlykkjast niður eftir fjallvegum 500 til 1000 metra niður (2-4 klst.) og svo aftur upp í næstu fjallshlíðarkúru.
Við komum hingað fyrir tíu dögum ásamt fjórum vinum úr brúðkaupinu í Digha. Komum okkur strax fyrir í herbergi sem við leigjum af Matildu og Genesis, hjónum á eftirlaunum sem reka vinsælt gistiheimili hér í bæ. Darjeeling er alger andstæða borga sem þekktar eru fyrir að sofa ekki að því leyti að klukkan átta á kvöldin lokar allt og öll ljós eru slökkt, það skýrir líka hvers vegna fólk er árrisult og engum þykir tiltökumál að fylgjast með sólarupprás milli fimm og hálfsex. Koma mér í hug máltæki eins og: Í háttinn klukkan átta, morgunstund gefur gull í mund og morgungull kallar á miðdegisblund. Höfum haft það gott hérna, aðallega rólegt ef frá er talin þriggja daga fjallganga.
Ég ætla nú ekki að tíunda gönguferðina lið fyrir lið en þetta var bæði upp og niður og svo aftur lengra upp og aðeins niður aftur. Í lok fyrsta dagsins, eftir 14 kílómtra göngu, gistum við í afar einfaldri en huggulegri bændagistingu. Þess ber að geta að bændagistingin var í Nepal. Rafmagnsnotkun var algerlega í lágmarki og húsið ókynt. Fyrir vikið varð eldhúsið aðalfélagsmiðstöðin enda eldstóin þar (og maturinn!). Húseigendur buðu okkur te og elduðu ofaní okkur bæði kvöld- og morgunmat meðan 9 ára nágrannadóttir gekk um beina. Á öðrum og þriðja degi gengum við u.þ.b. 21 km á hvorum en það sem meira er um vert að í 3636 metra hæð í Sandakhpur klukkan 5:20 sáum við sólina gægjast upp á milli fjallanna og lita hæstu tinda heims bleika, appelsínugula, gula og skjannahvíta. Ber þar helst að nefna hinn stórbrotna tind Khangchendzonga (8.598 m). Einnig sáum við hið margfræga Everest (8,848 m) þó það væri talsvert lengra frá.
Darjeeling er mikill ferðamannastaður og svolítið annar hópur þar en maður er vanur að sjá í Indlandi. Tók ég t.d. mun meira eftir frönskum ferðamönnum heldur en áður. Annað sem var öðruvísi en á flestum ferðamannastöðum Indlands: Úlpur, lokaðir skór, húfur, vettlingar, flíspeysur og så videre. Hér er talsvert svalara en niðurfrá.
Að þessu sinni var líka mikið af túristum frá öllum helstu nærsveitum (alveg til Delhi skilst mér) þar sem hátíðahöld kölluð Durga Puja stóðu yfir. Durga Puja þýðir í raun bara Durga Partí en Durga þessi er kvenorkudæmi, einhvers konar gyðja, afar flókin að gerð, erfitt að nálgast eða botna nokkuð í. Hún er semsagt þessi fjarlæga típa á sama tíma og hún er líka móðir alheimsins, afar mögnuð gella og tákngervingur heildar. Hún er vinsæl og veit af því. Í tilefni af hátíðinni var svið á aðaltorgi bæjarins og dans- og tónslistaratriði í lange baner, svolítil 17. júní stemning.
Í lokin má nefna að Darjeeling bær er frægur fyrir mikla teræktun og ber nokkuð þar á lífrænni ræktun, við heimsóttum verksmiðju Harrods sem einmitt er með lífrænt te. Einnig kíktum við í dýragarð staðarins og var jafnmikið tekið af myndum af okkur og Bengaltígrunum, Indverjum finnst nefnilega voðalega gaman að eiga myndir af sér með Norrænum fyrirmennum. Stundum hef ég líka gaman af þessum myndatökum en stundum alls ekki. Þennan dag hafði ég gaman af þeim :)
2 ummæli:
Gaman! Passa sig á tígrunum... en nú er ár tígursins, svo þetta er líklega allt í lagi. Knús til ykkar, megatígurknús!
Ólöf múmínmamma
Gaman að heyra frá þér kæri Nova kaffi vinur.Gangi ykkur vel.Kveðja geiriiiiiiiiiiiiiiiiiiiiii
Skrifa ummæli