þriðjudagur, 17. júlí 2012

Rundt øya, 2. del

Þá heldur sagan mikla áfram, af því þegar við gengum hringinn um eyjuna eina fagra sumarnótt í júlí.

Þegar við vorum búin að fíflast framan í linsuna í Nøvvika héldum við för okkar áfram. Til að komast upp úr Nøvvika urðum við að leggja í kletta sem afmarka víkina. Þarna kom sér vel að vera á fjöru en ekki flóði, við gátum með tiltölulega léttum leik komið okkur upp á klappirnar og klöngrast meðfram þeim eða þangað til við komumst aftur á þurrt land.


Á bauju

Á grýttri strönd

Við tók kjarrivaxið land og við fylgdum áfram merktri leið, þ.e. rauðu T sem málað hafði verið á vel valda steina. Þegar við komum að sumarbústað í kjarrinu beygði leiðin hins vegar skyndilega inn í land og í átt að fjalli. Þangað hefðum við haldið ef við ætluðum okkur upp á fjallið en núna var kominn tími á að finna sínar eigin leiðir. Og það er ekki sérlega flókið þegar maður er á eyju og ætlar að fara hringinn: maður fylgir bara strandlínunni.

Bara. Það er kannski ekki rétt orð í þessu samhengi. Gefur til kynna létt verk og löðurmannlegt en það reyndist síður en svo vera raunin. Framundan voru þverhníptar og sleipar klappir með aðeins einum áfangastað ef maður missti hælinn undan skónum, nefnilega sjórinn fyrir neðan. Kaldur sjórinn skulum við heldur hafa það.

Stórgrýtt

Þetta var ekki svo slæmt til að byrja með, við gátum gengið upprétt og spókað okkur eins og mávar í fjöru. Urðum að sjálfsögðu að hafa augun opin fyrir þangi sem lá í leyni eða stöku hrúðurkalli og svo var þarna ýmsan fjársjóð að finna. Baldur fann til að mynda nokkrar tómar krabbaskeljar sem fönguðu athygli hans og sjálf var ég að gaumgæfa skeljar á steinunum og skærgræna gróðurinn sem maraði í kafi á milli steina í flæðarmálinu.

Tóm krabbaskel

Sægræna

Já, gamanið hófs vissulega vel. Þið vitið þó hvernig manni ber að botna þessa hugsun. Það fór að kárna. Það fór að kárna um það leyti sem við slitum kossinum hér fyrir neðan og hófum klappagönguna að nýju. Nú fór veruleg að halla undir fæti og það í mjög svo bókstaflegri merkingu. Hvergi var neitt hald að fá fyrir fætur og því vorum við fljótlega komin á alla fjóra og skriðum eftir klöppunum með hafið gutlandi fyrir neðan okkur. Lágum sem límd við grjótið undir okkur en litum af og til upp og áfram og sáum bara endaleysu af því sama: klappir svo langt sem augað eygði.

Á góðri stund

Það var um þetta leyti sem gamanið tók að kárna. Nei, bíddu ég er búin að nota þetta. Það var hér sem allt hélt áfram að kárna. Og af hverju það? Af því að við héldum áfram að fikra okkur eftir klöppunum, bogin í baki, komin með fingravettlinga á loppurnar til að forða þeim frá skurðum og skrámum og komin með hálsríg af því að líta alltaf upp og áfram.

Það væri hins vegar lítið varið í þessa frásögn ef við hefðum ekki lent í smá hrakningum. Þegar við sáum fram á að vera alla nóttina að klöngrast á fjórum fótum hringinn í kringum eyjuna eins og pokamýs fórum við í örvinglan að skima eftir útkomuleið. Ég fyrir mitt leyti orkaði ekki meira af þessari afkáralegu leikfimi og átti ekki nóg eftir af þeirri athygli sem hún útheimti: að grandskoða flötinn framundan áður en fóturinn steig niður, skima eftir haldbæru taki fyrir höndina, bogra sig og beygja og bukta, skakklappast og skælast.





Baldur

Lausnin var hins vegar ekki langt undan og fólst í því sem kallast Storknean sem er hæð eða lítill tindur. Við hugsuðum með okkur að það yrði léttara að príla upp hlíðina og yfir Storknean og þannig ná fyrir nesið sem við annars sáum fram á að handfjatla alla leið héldum við uppteknum hætti. Boy, were we wrong!

Við lögðum því upp þverhnípt klettabeltið og hér er ég ekki að ýkja. Smeygðum okkur upp sprungu þar sem maður varð að að styðja sig við bergið með annarri löppinni á meðan hin fann gjótu fyrir tær og hendurnar fundu skot til að hífa upp skrokkinn.

"Nú erum við að tala saman," hugsaði ég þegar hér er komið sögu. "Þetta er almennilegt!" Klettaklifur um miðnætti í dagsbirtu við Pólbaug, ekkert að því.

Útsýni

Við héldum áfram að hífa okkur upp brattann klettinn og smokra okkur framhjá köngurlóavefjum og burknum. Þegar við vorum komin upp úr þessu gili stóðum við frammi fyrir langri og stórgrýttri skriðu. Og sú var laus í sér. Ef mér þótti þreytandi að pukrast eftir klöppunum fyrir neðan þá fékk ég það nú staðfest að það var leikur einn við  hliðina á þessum hildarleik. Hér var raunverulega sú hætta á ferðum að manni skrikaði fótur og húrraði niður með ógurlegum afleiðingum. Þetta varð til þess að við fórum hægar yfir en letidýr í letistuði og ekki jók það á hraðann að hafa Baldur fyrir framan sig kallandi aftur yfir öxlina: "Bara hægt, bara hæææægt, og mjúk í hnjánum."

Þessi skriða ætlaði engan endi að taka og eftir því sem grjótið í henni varð smærra varð varhugaverðara að vera yfirhöfuð að fikra sig eftir henni og því fórum við enn hægar yfir en áður. Eftir skemmtileg átök klettaklifursins var þetta eins og að ætla sér að þræða nál með lakkrísreimum, tímafrekt og eflaust óvinnandi vegur.

Það kom að þeim tímapunkti að við sáum fram á að klára skriðuna og brölt okkar í henni en þá reyndist framhaldið ófært og við urðum að snúa til baka og klöngrast niður skriðuna. Þeir sem hafa reynslu af því að ganga í skriðum vita að best er að þvera þær og verst er að fara niður. Til að skíða ekki niður brekkuna og beint út í sjó á grjótskíðum héldum við dauðahaldi í birkihríslur og hentum okkur úr fangi einnar í fang annarrar.

Træna í bakgrunn

Þá var bara eftir ein tiltölulega stutt skriða, reyndar vaxin burknum, og við himin sáum við bera áfangastaðinn: ásinn sem við ætluðum yfir. Rifum í burkna, spændum undan okkur smásteinum, svitnuðum og djöfluðumst því upp skyldum við, sama hvað! Fundum vörðu þegar við vorum rétt ókomin og stöldruðum þar til að kasta mæðunni. Skriðum svo næstum því þessa fáu metra sem eftir voru og hlömmuðum okkur í grasivaxna laut.

Untitled

Þar drógum við fram hitabrúsa og prótínbör, supum á heitu teinu og bitum í orkuna. Sáum að klukkan var gengin miðnætti og undruðumst eina ferðina enn á því hvernig gæti verið dagsbjart um hánótt. Ég bara venst ekki þessu fyrirkomulagi!

Sóley, uppáhalds

Við nutum þess að hvíla lúna lærvöðva og glápa í allar áttir frá þessum ágætisútsýnisstað sem Storknean er. Úr áttinni sem við komum sáum við út yfir öll skerin en þegar við snerum okkur við sáum við yfir til Hestvika og Træna í fjarska. Að sjá til Hestvika var eins og að sjá húsið sitt og hreinlega rúmið sitt og sængina. Við þekkjum leiðina til og frá Hestvika og vissum sem var að nú hlyti leiðin heim að vera auðsótt. "Já, við verðum ábyggilega komin heim eftir svona klukkutíma," sögðu við hvort við annað og fengum okkur meira te.

En við vissum ekki hvað eyjan var að hugsa í hljóði: you ain't seen nothing yet!

Engin ummæli: