sunnudagur, 15. júlí 2012

Salsalasanja

Við fengum vin okkar Olle í mat í gær og buðum upp á það sem ég kýs að kalla salsalasanja. Uppskriftina fann ég á síðunni Live.Learn.Love.Eat. og sú sem heldur þeirri síðu úti kallar réttinn Taco casserole. Mín útfærsla á réttinum er örlítið önnur en í heildina sú sama.

Ég er búin að elda þennan rétt ábyggilega þrisvar á jafnmörgum vikum, svo hrifin erum við af útkomunni. Ekki spillir að hér er gengið á áðurnefndar hýðisgrjóna- og linsubaunabirgðir.


Í réttinn fer næringarger (e. nutritional yeast) sem ekki bara næringarbætir réttinn heldur bragðbætir einnig mjög. Auðvitað má sleppa næringargerinu en ég mæli engu að síður með að verða sér úti um það og prófa réttinn með því. Það má nálgast næringarger í sumum af heilsubúðunum, síðast þegar ég var á landinu keypti ég það í heilsubúðinni á Klapparstíg, við hliðina á veitingastaðnum Garðurinn. Það er hægt að kaupa það í mjöl- og flöguformi og ég er hrifnust af flögunum. Þannig má nota það út á salöt og gefur það salatblöðunum crunchy áferð og nutty bragð.

Hráefni:

2 msk góð steikarolía
1 meðalstór laukur, skorinn smátt
1 græn papríka, skorin smátt
1 rauð papríka, skorin smátt
3 hvítlauksrif, pressuð
1-3 tsk chilli duft (fer eftir styrk chilli duftsins sem þú notast við, sjálf nota ég bara hálfa tsk af cayenne pipar)
2-3 tsk þurrkuð papríka
2 tsk lime safi
2/3 bolli næringarger
2 krukkur (650 ml) salsa sósa
2 bollar soðin hýðisgrjón
1 bolli soðnar grænar linsur eða svartbaunir
Rifinn ostur


Hvernig:
Ofninn stilltur á 180°C. Hita olíuna á stórri pönnu og steikja laukinn, hvítlaukinn, papríkurnar, chilli duft og papríkuduft ásamt lime safa í 5-8 mín. eða þangað til mjúkt.

Því næst skal bæta næringargerinu og sölsuna við. Að lokum er grjónum og linsum bætt við og hrært vel saman. Elda áfram á pönnunni í 3-5 mín. í viðbót eða þangað til kássan er heit í gegn.

Nú skal hella kássunni yfir í eldfast mót og jafna vel úr, passa upp á að yfirborðið sé jafnt. Setja yfir rifinn ost í því magni sem maður óskar sér helst og inn í ofn í 25-30 mín. eða þangað til osturinn hefur fengið gullinn blæ.

Í tilefni þess að við höfðum gest í mat var öllu til tjaldað og bárum við fram með réttinum sýrðan rjóma, chilli kryddaðar nachos flögur og salsa on the side. Buðum svo upp á sommerslør í eftirrétt og skáluðum fyrir Lovund, Indlandi og góðri vináttu.

Engin ummæli: