laugardagur, 11. ágúst 2012

Dalvík

Þá erum við komin norður eftir viðburðarlítið ferðlag norður í land. Brunuðum þetta í nokkurn veginn einum spreng og enduðum í Hrafnagili undir kvöld.

Í gær var Fiskidagurinn mikli á Dalvík haldinn hátíðlegur og við þangað í fyrsta sinn að upplifa fisk í allri sinni dýrð. Kannski svolítið sérstakt að hafa heila hátíð fyrir fisk þegar maður staldrar við og hugsar út í það, eða öllu heldur sérstakt að gera sér langa ferð til að mæta á slíka hátíð, en þá er bara að muna að það er nóg af harðfiski maður!

Og það var ekki bara harðfiskur í boði, nei ónei. Þarna var suðræn sveifla í gangi og því hafði þorskinum verið pakkað inn í álpappír með madras karrýi og kókossósu og bleikjan hafði verið elduð upp úr ananas-karrýsósu. Kannski er það eftir svona langa dvöl í Indlandi að þetta smakkaðist frekar bragðdauft, allavega hefði alveg mátt setja smá masala á þetta segi ég og hljóma þá eins og allir hinir Indverjarnir sem vilja masala út á allt.

Til að seðja sárasta hungrið fórum við í lengstu röð landsins sem lá samsíða lengsta grilli landsins. Ég hef enga tölfræði til að renna stoðum undir þessar lengdarfullyrðingar, þetta er bara tilfinningin sem segir mér þetta. Við enda biðraðarinnar beið okkar fiskiborgar í brauði og hamborgarasósu sem við síðan jöpluðum á við fiskikar sem breytt hafði verið í ruslatunnu í tilefni hátíðarhaldanna.

Eftir borgarann og sem betur fer ekki fyrr, fórum við að skoða fiskana sem lagðir höfðu verið fram til sýningar á ís í körum. Þarna kenndi ýmissa grasa og fróðlegt margt að sjá, mikið er annars til af ófrýnilegum sjávarverum, en burtséð frá því þá var verulega farið að slá í margan fiskinn. Ég held þeir hafi hreinlega verið frystir og affrystir á milli ára. Allavega veit ég hvernig nýslátraður lax lítur út og hann er ekkert í ætt við sýningarlaxinn á Dalvík. Alveg kominn tími á að skipta út fiskinum, segi það og skrifa!

Óvæntasta og gleðilegasta stund dagsins var að hitta hana Maríu mína og Sölvann hennar. Náðum að faðmast og spjalla smá þrátt fyrir háværan barnsgrátur og söng í míkrafónum. En síðan urðu þau að bruna á Ólafsfjörð og eftir að hafa uppgötvað sameiginlegan áhuga á hjólreiðum um borg og bý ætlum við að mæla okkur mót síðar í mánuðinum og taka góðan túr saman. Æðis!

Eftir að hafa skoðað höfnina vandlega og fylgst með guttum að róa kayak og slást með árum rak Baldur augun í fornbíla sem stillt hafði verið upp á túni þarna rétt hjá. Hann fór nánast rakleitt að Chrysler LeBaron-inum og heimtaði mynd af sér og bílinum. Svona bíl átti hann fyrir einum 11-12 árum síðan og þegar hann lét bílinn frá sér var ástarsorgin svo mikil að enn í dag er farið lofsömum orðum um gæði og styrk bílsins við mig sem og bláókunnugt fólk.

Frá fornbílum álpuðumst við inn á Gestastofu sútarans og skoðuðum og handfjötluðum leður og skinn af hinum ýmsustu skepnum. Þarna var mikið gert með fiskiroð, laxaroð þar á meðal, og meira að segja strútslappir höfðu verið sútaðar og litaðar. Fiskiroðið er að sögn sútarans vinsælt meðal stóru merkjanna útí heimi og sáum við einmitt upp á veggjum auglýsingarplagg frá Nike sem sýndi smart íþróttaskó úr lituðu roði. Töff töff töff!

Við enduðum heimsókn okkar á Dalvík á ferð í fínu laugina þeirra. Þar lá fólk í pottum eins og sardínur í blikkdós svo við fórum í rennibrautina, sem var mjög stressandi því ég hef aldrei farið svo hægt áður í rennibraut að ég stöðvist áður en ég næ í laugina aftur. Var voða skelkuð að fá einn aftan á mig á fleygiferð, en eftir á að hyggja er alveg borðleggjandi að enginn getur brunað hratt niður þessa allra hægustu rennibraut landsins. Reyndum loks fyrir okkur í eimbaðinu og þar áttum við góða stund í heitri gufunni.

Brunuðum svo í bæinn undir kvöld og fengum okkur pizzu á Bryggjunni og fórum svo að sjá Seeking a Friend for the End of the World með Steve Carell. Hef aldrei farið í bíó á Akureyri áður og það var lúmskt flippað að eiga svona týpískt date-kvöld saman og keyra svo heim í tjaldið að því loknu. Það er stíll á þessu hjá okkur!

Inn eftir Eyjafirði

Lukkutröll á póstkassa

Untitled

Fiskiborgarinn

Le Baron

Reffilegur

Sæfari

Skreytingar

Laxaroð

Engin ummæli: