Það sem af er ári hef ég náð að halda ansi vel á bókaspöðunum. Komin með 35 bækur og fóru þó tvær vikur í dásamlegt ferðalag um Frakkland í apríl. Furðulegt nokk voru það janúar og febrúar sem voru ódrjúgustu mánuðirnir en maí og júní gjöfulastir. Ég veit ekki hvað er í gangi, hvort þessi breyting á lestrarmynstir sé tilfallandi eða komin til að vera. Bíttar engu, lesi ég góðar bækur er ég sátt. Nei, lesi ég bækur er ég sátt.
Þar sem ég get að sjálfsögðu ekki gert mér né öðrum það að taka 35 bækur til umfjöllunar valdi ég að taka frá þær tólf bækur sem mér þóttu markverðastar og setja forsíður þeirra í pósterinn hér að ofan. Af þessum tólf tek ég síðan átta fyrir til umfjöllunar. En ég hefði svo gjarnan viljað tala um þær allar... Í staðinn lofið þið að treysta því að þær eru æði og lesa þær eins og þær eiga skilið að vera lesnar.
Longbourn (2013), Jo Baker
Ok, við erum komin í heim Pride and Prejudice! Nema hvað aðalpersónur þeirrar sögu eru í aukahlutverkum hér og ósýnilegar persónur þar eru í aðalhlutverkum hér, þ.e. þjónustufólkið á Longbourn, heimili Elizabethar og Jane Bennet. Ólíkt P&P er hér um sögulegan skáldskap að ræða og oft vill verða svo að rithöfundar sem tækla slíkan skáldskap leggja mikið upp úr rannsóknarvinnu sem þeir síðan flétta inn í frásögnina, til að auðga hana af blæbrigðum, draga fram andrúmsloft og hjálpa manni að svífa aftur í tímann. Þessu veldur Jo Baker mjög vel. Við erum með þegar Sarah, þerna á Longbourn og aðalsöguhetjan, bölvar yfir drullunni í kjólum Bennet systranna, eða kertavaxinu sem þær náðu að hella yfir silkikjólinn sinn. Þetta er hlið lífsins sem Jane Austen sýnir okkur ekki í P&P. Síðan fléttast inní söguna smá ástarsaga, smá drama, smá húmor. Fyrir vikið verður verkið mjög alhliða og heildstætt. Bók sem ég get óhikað mælt með við hvern sem er, sérstaklega þó þá lesendur sem vilja meira af heimi P&P.
The Red Tent (2005), Anita Diamant
Þessi er svakaleg! Swoon! Hér eru samankomnir allir þeir þættir sem ég leita helst eftir í skáldverkum. Frábært sögusvið, sögulegur skáldskapur, sterkir karakterar og óttalaus rithöfundur sem skrifar af svo mikilli festu og áræðni að ég myndi ekki hika við að fylgja öllum hennar ráðum værum við kunningjakonur í raunheimum. Aðalpersónan er Dinah, dóttir Leu og Jakobs úr gamla Testamentinu. Þar er rétt minnst á Dinuh í framhjáhlaupi, hér er heilli bók varið í skáldað lífshlaup henni. Við fylgjumst með uppvexti hennar í eyðimörkinni, lífi mæðra hennar og annarra kvenna ættbálksins og skyggnumst inn í rauða tjaldið þar sem siðir og sögur kvennanna fá að blómstra. Búið ykkur undir mikið drama, sorg og reiði, en einnig mikla samkennd og samstöðu. Mæli með þessari með öllum orðum sem finnast.
Wild (2012), Cheryl Strayed
Þessi bók er svo góð að hún ætti að vera ólögleg. Skemmtilegt að ég skyldi minnast á ólöglegt því Cheryl Strayed var einmitt komin hættulega nærri háskabrún í eiturlyfjaneyslu. Aðallega var það þó sorgin eftir móðurmissi sem dró Cheryl út í eyðimörkina í Kalifórníu þar sem hún hóf þriggja mánaða hike norður eftir PCT stígnum. Í Wild lýsir Cheryl göngunni og flétta síðan inn í söguna brot úr lífi sínu sem færir okkur til að skilja betur af hverju hún hafnaði á PCT stígnum. Cheryl hefur frábært vald á textanum, hann flæðir fram meitlaður og útskorinn eins og fínasti listmunur. Hún kemur fram af algjörri hreinskilni og berskjaldar sig. Hún ígrundar líf sitt af svo mikilli natni og íhugun að manni finnst maður heiðraður að fá að fygljast með. Ein af mínum uppáhalds BIG TIME.
The Vacationers (2014), Emma Straub
Hér er á ferðinni ein af þessum bókum sem manni finnast svo einfaldar í framsetningu að maður hljóti að geta apað slíkt annað eftir, en man svo allt í einu að þetta er gildra: einföldu bækurnar eru skrifaðar af frábærum pennum. Þessi saga er afar einföld utan frá séð, en það koma margar persónur við sögu og bara það eitt eru boltar á lofti sem Emmu tekst listavel að jöggla. Sögusviðið, Mallorca, er óvenjulegt, einna helst fyrir þær sakir að það er svo hversdagslegt að fara til Mallorca í frí að manni dytti ekki í hug að staðsetja skáldsöguna sína þar. Þá bætir hún út í pottinn ólíkum fjölskyldum sem ferðast saman frá Bandaríkjunum í frí og við fylgjumst með því sem kemur upp á yfirborðið meðan á fríinu stendur. Ég hafði virkilega gaman af því að lesa þessa bók, saknaði þess mest að vera ekki í fríi á Spáni á meðan.
The Rosie Project (2013), Graeme Simsion
Þegar ég var hálfnuð með bókina var ég búin að hlæja svo mikið að ég byrjaði upp á nýtt og í þetta sinn dró ég Baldur með mér í sófann til að hlusta. Þannig las ég þessa bók 1,5 sinnum og hafði gaman af hverju einasta orði. Kannski má best lýsa bókinni sem gamansögu með alvarlegum undirtóni, því vandamálin sem aðalsöguhetjan þarf á díla við eru ansi raunveruleg. Titill bókarinnar vísar í verkefni sem Don, aðalsöguhetjan, setur á koppinn í því augnamiði að finna sér lífsförunaut og þegar andstæða hans kemur arkandi inn í söguna fylgjumst við með samskiptum þeirra og samdrætti sem á köflum er mjög skemmtilegur. Létt og skemmtileg lesning sem við bæði höfðum mjög gaman af.
Jonathan Strange and Mr Norrell (2006), Susanna Clarke
Ég er alltaf að sjá það betur og betur hvað ég elska fantasíur og furðusögur. Jonathan Strange and Mr Norrell er einmitt blanda af þessu, furðusaga og fantasía. En ólíkt mörgum öðrum fantasíum á hún sér ekki stað í miðaldarheimi, heldur í Englandi 19. aldar og Susanna Clarke fléttar raunverulegum atburðum úr Napólensstríðunum inn í söguna. Í hennar útgáfu eru það þó galdrar sem (stundum) hjálpa Englendingum í stríðinu og sagan fjallar um hvernig tveir galdramenn, Jonathan Strange og Mr Norrell, ná að hefja galdralistina aftur til vegs og virðingar. Þetta er stórskemmtilegt umfjöllunarefni og ofan á þetta bætast svo frábærir karakterar, spennandi atburðarás og frábærar lýsingar á samfélagi og liðnum tíma, svo úr verður dúndursaga.
The Signature of All Things (2013), Elizabeth Gilbert
The Signature of All Things er uppfull af fróðleik og smáatriðum sem kemur til af ítarlegri rannsóknarvinnu og nákvæmum vinnubrögðum höfundar. Að öllu leyti er bókin frábær smíð og mikið afrek því Liz Gilbert tekur það að sér að skapa nýja kvennasögu og gefa konum fyrirmynd í persónu sem kannski aldrei var til á sínum tíma en er til í dag. Liz tekst að fóðra okkur á sögu sem byggir á lýsingum á plöntum, lífi sjóara á ofanverðri 18. öld, baráttunni gegn þrælahaldi, lýsingum á mosa, upplýsingum um mosa, áhuga aðalpersónu á mosa, og maður gleypir hvern munnbitann á fætur öðrum. Það eina sem ég hef út á söguna að setja er að ég small ekki saman við Ölmu Whittaker, aðalpersónu sögunnar sem mér fannst vera þver, ofdekruð og þröngsýn. En þeir eiginleikar voru að mörgu leyti nauðsynlegir fyrir söguna svo ég hef ákveðið að sjá í gegnum fingur mér með það.
The Luminaries (2013), Eleanor Catton
Þessi bók hlaut Man Booker verðlaunin 2013. Það er tvennt sem mér finnst eftirminnilegast við þessa bók: sögusviðið og aldur höfundar. Eleanor Catton var 26 ára þegar hún skrifaði þennan mikla doðrand. 26 ára! 28 ára þegar hún hlaut Man Booker verðlaunin. Hvaða mikla gáfnaljós er þessi Eleanor Catton eiginlega? Sögusviðið er Nýja Sjáland á ofanverðri 19. öld, sem maður rekst ekki oft á í bókum og því var það eitt og sér aðlaðandi í mínum huga. Inní söguna fléttast svo gullæðið, smábær, ráðgáta og áhugaverðir karakterar. Þá er uppbyggingin mjög metnaðarfull og maður er hálf dolfallinn að svona ungur rithöfund hafi sent frá sér svona flókið verk. Persónur eru vel dregnar, framvindan er spennandi og sögulegur fróðleikur er vel fléttaður inní. Hins vegar er sagan ansi löng og doðrantur er rétta orðið enda er hún einar 848 síður að lengd. Ég myndi því segja að þetta verk væri frekar ætlað þeim sem hafa mjög gaman af sögulegum skáldskap og frumlegri uppbyggingu.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli