fimmtudagur, 5. september 2002

Hringferðin 2002

10. ágúst - Skógar, Vík í Mýrdal & Kirkjubæjarklaustur
Við brettum upp ermar um morguninn, drifum útilegudótið út í bíl og gerðum allt fínt og flott á nýja heimilinu okkar. Fríða Sól fékk sinn skerf af nýjum gulrótum og blómin fengu öll vökvun og klapp. Síðan var lagt í´ann rétt eftir klukkan 13.

Þar sem við fórum suðurleiðina keyrðum við sem leið lá til Hveragerðis og svo í gegnum Selfoss, Hellu, Hvolsvöll o.s.frv. Fyrsta stopp var á Skógum þar sem við gengum upp litlu hlíðina við Skógarfoss. Þegar upp var komið gengum við ofan á hlíðinni og niður í gil þar sem áin rennur um.

Eftir fossabröltið var haldið áfram að Vík í Mýrdal þar sem við kíktum á mömmu hennar Kiddu. Kidda sjálf var á svæðinu þegar við bönkuðum upp á og fengum við kleinur og með því hjá þeim mæðgum.

Þegar við loksins höfðum okkur á brott úr góðum selskap brunuðum við á Kirkjubæjarklaustur í þeirri von að ná ofan í sundlaugina áður en lokaði. Hún var lokuð þegar okkur bar að garði og þá var bara um eitt að ræða: finna stað til að tjalda, borða og lúra. Við fórum að hólunum vestan við Klaustur. Þar er nefnilega hægt að fela sig og bílinn og gistingin hefur hingað til verið frí.





11. ágúst - Systrastapi, Skaftafell, Jökulsárlón & Höfn

Við hófum daginn á því að klifra upp Systrastapa með nestispakka og góða skapið. Upp á fjallinu er Systravatn sem Systrafoss rennur úr. Þar er líka berjamó og týndum við nokkur súr krækiber. Síðan var hlaupið niður fjallið ef fjall skyldi kalla. Reyndar væri líka viðeigandi að segja 'ef hlaup skyldi kalla' því við kjöguðum þarna niður eins og andapabbar. Baldur vildi nefnilega endilega að við færum að ráðum Hjálparsveita skáta eða einhverra og láta hnén dúa í hverju spori. Það tók okkur óratíma að klöngrast þannig niður en þegar á jafnsléttu var komið hentumst við í sund.

Eftir sundið var haldið áfram í austur og ekki stoppað fyrr en í Skaftafelli. Þar skoðuðum við upplýsingamiðstöðina eins og ekta túristum sæmir og horfðum meira að segja á myndband um hlaupið í Skaftá 1996. Þá hafði Gjálpi gosið þremur vikum fyrr og var hlaupið bein afleiðing þess. Vatnsmagnið í ánni stórjókst og þegar mest lét runnu fimmtíu þúsund tonn af vatni á sekúndu!

Fórum síðan í gönguferð um Skaftafell, gengum að Hundafossi og Magnúsarfossi, sáum lítið bjálkahús við árbakka, kíktum á Svartafoss og virtum fyrir okkur útsýnið frá þar til gerðri skífu. Heimsóttum líka gamalt eyðibýli, Sel, en í því var búið fram undir miðja tuttugustu öld. Á leiðinni til baka fundum við lítið rjóður sem veitti okkur skjól fyrir rigningunni sem skollið hafði á.

Á leið okkur frá Skaftafelli til Hafnar í Hornafirði áðum við vitaskuld við Jökulsárslón. Við tókum nokkrar myndir af ísjökunum en mest um vert fannst okkur að skoða selina sem þarna syntu um.

Við kíktum á Höfn í Hornafirði og ætluðum síðan að tjalda einhvers staðar utan fyrir bæinn. Sú ráðagerð fór út um þúfur þar sem okkur tókst ekki að finna leiðina út úr bænum! Það var mjög sérkennileg upplifun svo ekki verði meira sagt. Við játuðum okkur að lokum sigruð og tjölduðum á tjaldstæði bæjarins á besta stað: útsýni yfir fjöll og dal og blátt vatn.

Afskaplega súr ber

Blóðberg var það heillin



Í Skaftafelli


Fífldjarfur að vanda

Glittir í Svartafoss

Sel

Hvönn

Rjóðrið góða

Jökulsárlón

Þjóðvegur 1

12. ágúst - Austfirðir

Við vorum vöknuð rétt fyrir klukkan sex næsta morgun. Skynsemin sagði mér að þetta væri allt of snemmt og því lagðist ég á hina hliðina og hélt áfram að dósa. Baldur hins vegar nennti ómögulega að hangsa meira og fór á fætur. Stuttu seinna var ég líka komin á fætur enda annað ómögulegt þar sem Baldur var farinn að rífa niður tjaldið! Svona á að gera þetta við þessi letiblóð sem liggja í bælinu fram eftir degi.

Hvað um það, við drifum okkur í sund eftir að hafa rifið niður tjaldið í mígandi rigningu og hent öllu okkar hafturtaski inn í greyið Nolla. Þar syntum við nokkrar ferðir í 12,5 m lauginni og ég gerði tilraun nr. 2 þetta sumarið til að læra flugsund. Og það tókst! Nú er bara að æfa sig og æfa því heyrst hefur að æfingin skapi meistarann.

Eftir þessa afdrifaríku sundferð héldum við för okkar áfram og nú vorum við komin á Austfirðina. Þar er mikið um malarvegi, þverhníptar brekkur, blindbeygjur og blindhæðir. Mæli með styrkri hönd á stýri og sterku hjarta fyrir þessa keyrslu. Ferðin var nokkur veginn svona:

Djúpivogur - pikknikkuðum og blunduðum í bílnum

Álftafjörður - allt fullt af álftum

Breiðdalsvík - ekkert stopp

Stöðvarfjörður - steinasafn Petru skoðað utan frá því við tímdum ekki að borga okkur inn

Fáskrúðsfjörður - franskur bær þar sem götuheiti eru á íslensku og frönsku

Reyðarfjörður - kíktum á stríðsminjasafnið

Eskifjörður - leigðum okkur lítinn kofa á 2.000 kr., fórum síðan að leita að hot springs en fundum ekki, náðum hins vegar að þurrka tjaldið okkar eftir úrhellið á Höfn


Á Fáskrúðsfirði

13. ágúst - Eskifjörður, Egilsstaðir & Atlavík

Yfirgáfum Eskifjörð eftir smá labbitúr um bæinn þar sem við kíktum m.a. á vindmyllu. Héldum síðan til Egilsstaða. Þegar nær dró Egilsstöðum tók landslagið að breytast. Vogskornir firðir viku fyrir miklum trjágróðri. Ekki slæm skipti það.

Við kíktum í sundlaug heimamanna og fundum síðan bílakirkjugarð. Þar hafði villikattarfjölskylda komið sér fyrir í hinu og þessu bílhræinu. Við gáfum þeim tvær síðustu makríldósirnar okkar. Keyrðum síðan að Hallormsstaðarskógi og gistum í Atlavík. Sá staður er alveg yndislegur, lítil vík við Lagarfljótið. Sáum reyndar ekki Lagarfljótsorminn.


Forvitnin að drepa mann


Sorpsamlag Mið-Austurlands, jahá!


Grease Lightning?

Svangur mangur

Gist í Atlavík

14. ágúst - Hallormsstaðarskógur, Skriðuklaustur, Hengifoss & Atlavík

Gengum um Atlavík og Hallormsstaðarskóg. Kíktum á trjásafnið en fundum ekki þessi frægu tré Kóng og Drottningu. Á leiðinni til baka gengum við yfir slegin tún með grænum heyböggum. Baldur náði að velta einum þeirra á bakið þrátt fyrir svakalega þyngd þeirra. Mér tókst ekki einu sinni að bifa þeim. Þegar við komum aftur á tjaldsvæðið náðum við í Nolla og drifum okkur að kíkja á Skriðuklaustur. Húsið er alveg geggjað, hannað af þýskum arkitekt.

Þaðan keyrðum við síðan að Hengifoss og klifruðum þangað upp. Það tók okkur alveg upp í tvo tíma enda leiðin brött og oft erfið yfirferðar. Þegar við komum til baka á tjaldsvæðið var það orðið yfirfullt af tjöldum. Í fjörunni var hópur fólks sem hafði kveikt varðeld og tékknesk rúta var mætt á svæðið.

Séð yfir Atlavík


Einn þungur heyböggull

Allt lagt í sölurnar

Hreykir sér

Skriðuklaustur

Hengifoss

Í Atlavík

15. ágúst - Mývatn & Dimmuborgir

Næsta morgun voru allir þessir ferðamenn, sem við höfðum séð kvöldið áður, horfnir og því var eins og við hefðum ímyndað okkur þá. Lögðum af stað til Mývatns. Leiðin þarna á milli er alveg grútleiðinleg, mikil auðn og endalausir malarvegir. Á Mývatn vorum við komin um tvö leytið og hittum þar Kristján, vin Baldurs sem vinnur á Hótel Reynihlíð og hafði boðið okkur gistingu á hótelinu.

Við kíktum á Dimmuborgir og rigndi okkur næstum niður þar. Dimmuborgir standa þó alltaf fyrir sínu hvað sem veðrinu líður. Um kvöldið borðuðum við síðan á veitingastað hótelsins í boði Kristjáns. Allt var einstaklega virðulegt og formlegt og því sátum við þarna og flissuðum eins og tvær unglingsspírur. Urðum ekki eldri þegar fiðluleikarinn sneri sér að okkur og spilaði fyrir okkur Er ég sá þig í fyrsta sinn.

Lífið er yndislegt

16. ágúst - Dettifoss, Ásbyrgi, Hljóðaklettar, Akureyri

Frá Mývatni að Dettifossi liggur leiðinlegasti vegur sem um getur á okkar landi. Við vorum svo illa haldin eftir þá svaðilför á litla sportbílnum okkar að við réttum litum á Dettifoss og héldum för okkar síðan áfram. Næsta stopp var nefnilega Ásbyrgi. Þegar þangað var komið vorum við allt í einu stödd á fegursta stað Íslands. Í léttum úðanum gengum við út að Grænutjörn og sátum þar í dágóða stund, nutum kyrrðarinnar og þagnarinnar. Nokkrar afar spakar endur gerðu sér dælt við okkur.

Eftir að hafa kvatt endurnar gengum við áfram um Ásbyrgi, upp á lítinn stapa og virtum fyrir okkur náttúruna. Gengum síðan að steyptum fleti í litlu rjóðri þar sem dansleikir hafa verið haldnir. Tókum nokkur dansspor en í þeim vetrarklæðnaði sem við vorum í komumst við ekki í stuð. Kíktum við hjá tjaldverðinum og spjölluðum við hann og tíkina hans sem flaðraði upp um alla. Spurðum hann út í bestu leiðina vestur á bóginn enda búin að brenna okkur á hræðilegum vegum.

Ákváðum að gista ekki í Ásbyrgi þrátt fyrir kynngi staðarins. Keyrðum að Hljóðaklettum og fórum í göngutúr um svæðið. Dagur var langt frá því að vera að kveldi kominn svo við brunuðum til Húsavíkur og ætluðum að gista þar. Þegar þangað var komið var nýbúið að loka sundlauginni og þá fannst okkur engin ástæða til að dvelja þar og héldum því rakleiðis til Akureyrar enda bara spölkorn frá. Enduðum á því að gista í Hrafnagili.




Þessi var skotin í Baldri

Grænatjörn ber nafn með rentu

Ásbyrgi

Kirkjan í Hljóðaklettum

Nettur sveppur

17. ágúst - Akureyri, Glaumbær & Snæfellsnes

Eins og okkar var von og vísa kíktum við í Akureyrarsundlaug. Eftir morgunbaðið röltum við um yndislegan miðbæinn, kíktum inn á Bláu könnuna og grömsuðum á bókaútsölu. Síðla dags héldum við síðan suður á Snæfellsnes en áðum í millitíðinni hjá Glaumbæ í Skagafirði.

Þar sem verið var að loka laumuðumst við inn í kirkjuna til að sjá hvernig var umhorfs en eftir á að hyggja var kannski óþarfi að laumast því varla getur verið óleyfilegt að kíkja inn í kirkju. Enduðum daginn á því að keyra fyrir Snæfellsjökul, hlustandi á Næturvörðinn Heiðu, og hentum upp tjaldi á Arnarstapa rétt fyrir miðnætti.

Þennan þekkja allir

Í Glaumbæ

Læðst inn í kirkjuna

Smá hvíld frá heyskapnum


Gist á Arnarstapa

18. ágúst - Arnarstapi, Búðir & Sönghellir

Seinasta deginum í ferðinni eyddum við á Snæfellsnesi. Við byrjuðum á því að labba þarna um eitthvert fuglabjarg þar sem allt var morandi í kríum. Sá labbitúr breyttist því flótlega í einhverskonar skokk-göngu. Við keyrðum síðan upp að Sönghelli sem er þarna rétt fyrir ofan Arnarstapa.

Þegar okkur bar að garði voru ekki margir á ferli svo Baldur greip tækifærið fegins hendi og blastaði vel út í hellinum. Þetta er greinilega ekki sönghellir fyrir ekki neitt. Á meðan Baldur kyrjaði sinn ástaróð til föðurlandsins komu þarna að erlendir túristar sem klöppuðu að söngnum loknum og virtust vera hrifnir og ánægðir með svona Íslending eins og Baldur.

Síðan var haldið í Lísuhólslaug sem er sú allra furðulegasta laug sem ég hef á ævinni komið í. Vatnið er grænt sem ætti ekki að koma á óvart þegar litið er til þess að vatnagróður vex í lauginni. Þegar sundferðinni var lokið keyrðum við að Búðum og gengum í fjörunni og létum heillast af fegurð staðarins.

Eftir það keyrði Nolli tvo þreytta en sátta ferðalanga heim til amsturs og hamsturs.

Bárður Snæfellsás




Ströndin við Búðir

(Ferðasaga fullgerð þann 15. desember 2005 og sett á netið)

Engin ummæli: