laugardagur, 5. apríl 2003

Veðurfréttir á bókasafninu

Í gær þegar við komum heim úr föstudagspizzu, sundi og rabbi tókum við eftir því hve kalt það var í íbúðinni. Við komumst fljótt að því að allir ofnarnir í íbúðinni voru ískaldir sem veitti ekki á gott því framundan var vetrarnótt.

Jæja, klukkan var reyndar langt gengin í tvö þessa nóttina en við létum okkur samt hafa það að tappa af nokkrum ofnum. Við vorum dauðþreytt og mér var orðið ansi kalt svo vonbrigðin voru ekki lítil þegar ofnarnir héldu sínu striki og kældu íbúðina.

Við brutum heilann nokkra stund og veltum fyrir okkur hvernig stæði á því að loft kæmi af ofnunum en samt hitnuðu þeir ekkert eftir aðgerðirnar. Við fengum síðan ljósaperu (!) og tékkuðum á heitavatninu. Það var við manninn mælt, ekki deigur dropi sem kom þegar skrúfað var frá krananum.

Við ypptum þá öxlum, skriðum upp í rúm og bættum á okkur flísteppi til vonar og vara. Undir morgun rumskuðum við síðan við læti í pípunum sem var kærkomin vísbending um að heita vatnið væri á leiðinni. Þetta var samt sko allt í lagi að gista svona í óupphitaðri íbúð eina nótt, sko.

Að lokum, er það bara ég eða finnst öðrum súrrealískt að heyra tilkynnt í kallkerfi Bókhlöðunnar að nú sé korter til lokunnar og fá jafnframt beint í æð nýjustu veðurspána? Ég held að starfsmenn safnsins séu að flippa því lesin var upp veðurspá sunnudagsins og síðan rétt í þessu var tilkynnt að samkvæmt veðurspánni sem var lesin upp hér áðan væri okkur óhætt að fara út í veðrið! Ég sé ekki betur en það sé sól og blíða, ja allavega enginn stormur. Hvað er eiginlega í gangi?