Stundum held ég að grínfréttavefir á borð við baggalút séu óþarfir því svo virðist vera að raunveruleikinn sé oft á tíðum mun klikkaðri og hafi ríkara hugmyndaflug til að skapa furðufréttir. Eða hvað finnst ykkur um að stinga af með son og átta ljón sirkusstjóra?
Tæplega fimmtug kona, sem starfað hefur sem ljónatemjari hjá svissneska farandsirkusnum Hinum fljúgandi sveppum, hefur hlaupist á brott með tvítugum syni sirkusstjórans, átta ljónum og tveimur tígrisdýrum. Konan var að þjálfa sirkusstjórasoninn í þeirri list að temja villidýr. Talsmaður þýska bæjarins Melle, þar sem sirkusinn var við sýningar, segir að þau tvö hafi orðið nánir vinir og ákveðið að hlaupast á brott.
Sirkusinn býður þeim, sem endurheimtir dýrin, jafnvirði nærri 13 milljóna króna í fundarlaun.
Nú þegar stúdentar sjá fram á frekar óspennandi sumarstörf sökum skorts á störfum væri ekki vitlaust að íhuga sumarstarf hjá Hinum fljúgandi sveppum. Ég hef heyrt að þar sé verið að leita að ljónatemjara og tíu vitleysingum sem tilbúnir eru að leika ljón eða tígrisdýr.