fimmtudagur, 3. apríl 2003

Fiðraður gestur

Þessa stórskemmtilegu frétt fann ég á netsíðu Moggans:

Það kemur fyrir að furðufuglar reki inn nefið á lögregluvarðstöðum landsmanna. Þeim, jafnt og öðrum gestum, er vel tekið og veitt úrlausn í samræmi við erindi sín. Um kvöldmatarleytið í gær lagði páfagaukur, á ferð um Ólafsvík, leið sína inn á lögregluvarðstofuna. Lögreglumönnum fannst hann vera illa til reika og nokkuð kaldur. Var honum því boðin vist á öxlum þeirra á meðan hann safnaði kröftum og fékk yl í kroppinn. Þegar komið var fram yfir útivistartíma hafði ung stúlka samband við lögreglu og kvaðst sakna páfagauks. Stúlkunni létti að vonum þegar hún frétti að páfagaukurinn væri í höndum lögreglu.

Þegar gengið var til náða í Ólafsvík í gær var páfagaukurinn því kominn í öruggt skjól hjá ungu stúlkunni.